Jóel Sæmundsson er þriggja barna faðir og leikari. Hann býr í Hafnarfirði og segir að hér líði honum einstaklega vel en hann kemur upphaflega frá Þórshöfn á Langanesi. Jóel ætlar að túlka Hellisbúann í Bæjarbíói og hefur fært verkið inn í nútímann.

Jóel lærði sína iðn í Bretlandi og hefur leikið í hinu og þessu síðan hann útskrifaðist. Við spurðum hann hvernig það kom til að hann tók að sér þetta þekkta hlutverk, sem margir hafa tekist á við áður, m.a. Hafnfirðingurinn Jóhannes Haukur Jóhannesson. „Þetta æxlaðist þannig að ég var búinn að hugsa mikið um þetta verk og ákvað að spyrjast fyrir um það. Viti menn, þeir hjá Theater Mogul voru líka að hugsa um það,“segir Jóel og að úr því hafi orðið nokkrir fundir og prufur. „Og núna erum við hér og ég verð segja að ég held að sýningin hafi sjaldan átt jafn mikið erindi til þjóðarinnar eins og akkurat núna þegar hlutverk kynjanna geta verið flókin og misskilin. Sýningin snýst um að mismunandi eiginleikar okkar séu í raun styrkleikar okkar. Það eigum við að nýta okkur og til að sameina okkur og hjálpast að.“

Kvenkyns leikstjóri

Spurður um hvort megi búast við einhverjum nýjum áherslum í þessar uppsetningu, segir Jóel að verkið sé aðeins öðruvísi en það hefur verið áður, bæði uppsetningin sjálf sem og almenn uppfærsla Hellisbúans inn í nútímann. „Enda er komið árið 2017 og það var t.d. ákveðið að hafa kvenkyns leikstjóra í verkinu, Emmu Perison, sem er gert í fyrsta sinn hér á landi. Það er mjög gott að fá þetta kvenlega innsæi Emmu. Hún er algjör snillingur og fyndin, en hún er frá Suður-Afríku og er búin að lifa og hrærast um allan heim sem leikkona, leikstjóri og leikskáld.“Jóel segir sýninguna vera fyrir 18 ára og eldri en markhópurinn sé fólk sem vilji hafa gaman og sérstaklega fólk sem sé í sambandi eða hafi einhvern tímann verið í slíku. „Ég get sagt fyrir mitt leyti að ég er ekki frá því að ég skilji hitt kynið aðeins betur eftir þetta ferli – og reyndar mitt kyn líka.“

Miðar á verkið fást hér.