Fulltrúar minnihlutans í skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar (SBH), þau Júlíus Andri Þórðarson, VG og Eva Lín Vilhjálmsdóttir, Samfylkingunni (S) skrifa grein í Fjarðarpóstinn undir heitinu „Skipulagsslys í uppsiglingu við Flensborgarhöfn?“  Þar lýsa þau yfir að núverandi tillaga verði ekki samþykkt af minnihlutanum.

Skipulagsferlið

Haldið skal til haga að fjórar tillögur um útlit byggingarinnar hafa verið kynntar í SBH og hafnarstjórn. Fyrsta tillagan var kynnt þann 23. ágúst 2016, á þeim fundi sátu fyrir hönd minnihlutans Júlíus Andri Þórðarson, VG og Ófeigur Friðriksson, S. Á þeim fundi var fyrst kynnt uppbygging vegna Hafró að Fornubúðum 5, kom fram að byggingin yrði 5-6 hæðir. Allir fulltrúar, þ.m.t. fulltrúar minnihlutans, tóku jákvætt í erindið. Næst kom málið á dagskrá SBH þann 24. jan. sl. þar sátu fyrir hönd minnihlutans, Júlíus Andri Þórðarson, VG og Óskar Steinn Ómarsson, S. Lögð var fram tillaga að deiliskipulagsbreytingu ásamt útlitsteikningum sem gáfu mynd af því sem þarna gæti komið. Gert var ráð fyrir 5 hæðum, hámarkshæð og byggingarmagn tilgreint. SBH þ.m.t. fulltrúar minnihlutans samþykktu að deiliskipulagsbreytingin yrði auglýst. Þann 25. apríl sl. var sama tillaga á dagskrá SBH. Þar sátu fyrir hönd minnihlutans þau Júlíus Andri Þórðarson, VG og Eva Lín Vilhjálmsdóttir, S. Ein athugasemd hafði borist og samþykktu allir fulltrúar SBH umsögn skipulagsfulltrúa og fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi Fornubúða 5. Lagt var til að  bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti breytt deiliskipulag. Samkvæmt því sem hér er rakið hefur ríkt full samstaða um skipulagsbreytinguna í SBH. Þriðja tillagan að útliti, sú sama og sýnd með áðurnefndri grein var kynnt í SBH þann 24.8. sl. Óskað var eftir breyttri útfærslu á byggingunni og var fjórða tillagan kynnt SBH þann 19.9. sl. Aukið uppbrot á byggingunni er frá fyrri tillögu og hámarkshæð 1,2 metrum undir samþykktu deiliskipulagi.

Ábyrg afstaða?

Það er e.t.v. til of mikils ætlast af fulltrúum minnihlutans að taka ábyrga afstöðu sem kjörnir fulltrúar, en þegar sömu fulltrúar eru búnir að taka jákvætt í og samþykkja í öllum ferli skipulagsins þar sem teikningar eru lagðar fram til skýringa verður að segjast eins og er að greinarskrif þeirra er í hrópandi ósamræmi við aðkomu minnihlutans í SBH að málinu. Feril málsins má sjá í fundargerðum SBH á heimasíðu Hafnarfjarðar.

Ó. Ingi Tómasson

Bæjarfulltrúi

Formaður skipulags- og byggingarráðs

Fulltrúi í hafnarstjórn.