Það er mikið fagnaðarefni að Hafrannsóknarstofnun sé á leið til Hafnarfjarðar. Fulltrúar minnihlutans í Hafnarfirði styðja komu stofnunarinnar heilshugar. Þó koma ýmis atriði í veg fyrir að minnihlutinn geti samþykkt þá tillögu sem nú er til umfjöllunar vegna nýbyggingar við Fornubúðir 5.

Svo virðist sem meirihlutanum liggi á að afgreiða þessa tillögu að telja mætti að málið hljóti sérmeðferð í samanburði við önnur sambærileg mál. Byggingin verður fordæmisgefandi fyrir hafnarsvæðið og þess vegna þarf að sýna fyllstu varkárni við ákvörðun um hvernig byggingu eigi að reisa á lóðinni, sér í lagi ef haft er í huga að enn á eftir að fara í opna hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag Flensborgarhafnar.

Staðsetning væntanlegrar byggingar er þannig að hún gæti orðið eitt af helstu kennileitum Hafnarfjarðar. Ef það á að vera sátt um bygginguna, sem reisa á við Fornubúðir 5, verður að vanda til verka. Verkefnið snýst ekki um að finna skammtímalausn. Við sem kjörnir fulltrúar erum í umboði allra bæjarbúa Hafnarfjarðar. Þess vegna eigum að taka til umfjöllunar þær skoðanir sem bæjarbúar hafa á verkefninu, óháð því hvar í ferlinu verkefnið er statt.

Nýja deiliskipulagið fyrir Fornubúðir 5 segir einungis til um hámark byggingarmagns, en ekki hvernig eigi að fullnýta byggingarreitinn. Við leggjum til að ný tillaga verði unnin sem tekur mið af fyrirliggjandi skipulagslýsingu Flensborgarhafnar. Í henni segir að þar skuli byggja „Lágreistar byggingar sem falla vel að aðliggjandi byggð“. Auk þess er kveðið á um að byggingarmagn og hæð nýrrar byggðar á svæðinu verði aukið í góðri sátt við aðliggjandi byggð. Núverandi tillaga verður ekki samþykkt af hálfu minnihlutans.

 

Fulltrúar minnihlutans í skipulags- og byggingarráði:

Eva Lín Vilhjálmsdóttir, Samfylkingin

Júlíus Andri Þórðarson, VG