Alma Björk Ástþórsdóttir stofnaði sprotafyrirtækið Monstra ehf fyrir 6 árum. Fyrirtækið hefur selt lítil handgerð ullarskrímsli í íslenskum verslunum fyrir erlenda ferðamenn þar sem þau hafa fengið frábærar viðtökur. Núna eru þau á leið til Japan. Fyrir skömmu var skrímslastuð í Hafnarborg þar sem börn fengu að hann sitt eigið skrímsli og mættu rétt innan við þúsund manns. Við heimsóttum Ölmu Björk og skoðuðum aðstöðuna.

,,Það var stór sigur að fá japanskan dreifingaraðila og við fórum til Tokyo í febrúar þar sem við skrifuðum undir dreifingarsamning við japanskan dreifingaraðila og skrímslin voru sýnd á Tokyo International Gift Show ásamt stóru strákunum eins og Marvel fígúrunum, Garfield, Svampi Sveinssyni og fleirum. Þegar það var kominn áhugi frá Japan ákvað ég að skrifa bókina “The Skrimslis of Lavaland” og fékk Eyrúnu Ósk Jónsdóttur rithöfund til þess að aðstoða mig. Nú hefur bókin verið gefin út á íslensku,“ segir Alma Björk.

Alsæll skrímslafaðir. 

Frá skrímslastuðinu í Hafnarborg, en þangað komu á milli 900 og 1000 manns. 

Bjarni töframaður töfraði unga sem aldna upp úr skónum. 

Mikil vinna að baki einu skrímsli

Skrímslin urðu til þegar afgangar hlóðust upp frá framleiðslu á fatnaði og leitað var leiða í vöruþróun til að takmarka sóun efna. Með skrímslasmiðjunni er metnaður settur í takmörkun á hráefnavinnslu og afgangsefni og afklippur nýtt til þess að skapa virði.“ Alma Björk segir meiri vinnu að baki einu skrímsli en fólk almennt gruni því erfiðara sé að vinna út efnisbútum en stærra efni. „Skrímslin eru með arma, fætur, horn og slíkt sem mörg handtök liggja að baki. Þá hafa skrímslin tengingu í íslenska arfleið og náttúru ásamt því að boða umhverfisvernd. „Okkur finnst þetta virkilega spennandi og eitthvað sem okkur langar að bjóða uppá í framtíðinni, þ.e. að fólk geti komið til okkar og gert sín eigið skrímsli.“

Svona verður skrímslahönd eða -fótur til. Fyrst er sniðið og saumað. 

Næst er klippt til. 

Að lokum er efninu snúið á réttuna.

Næsta skrímslasmiðja verður í Eymundsson Smáralind 3. desember næstkomandi og einnig er verið að semja við Bæjarbíó um annan slíkan viðburð í Hafnarfirði um miðjan desember.

Eyrún Ósk les úr bókinni og skrímslið Hellir fylgist með. 

Nokkrar útgáfur af skrímslum. 

Þessir hressu krakkar bjuggu til sín eigin skrímsli á skrímsladeginum:
Yngsta kynslóðin lét sig ekki vanta.