Hugleiðsla er vinsælt, vanmetið og misskilið fyrirbæri. Í mörg ár var ég aldeilis á leiðinni í að læra hugleiðslu en gaf mér aldrei tíma í það. Ég miklaði þetta svo fyrir mér og stórefaðist um að múltítaskari og sveimhugi eins og ég gæti sest niður og tæmt hugann. Ég hélt líka alltaf að þetta tæki að lágmarki hálftíma og að það yrði ógurlega erfitt að hugsa um ekki neitt. Og að öll hljóð yrðu truflandi.

Svo kom að því að ég brann út vegna álags og streitu. Ég varð að gefa mér tíma til að læra að slaka á, samkvæmt læknisráði, og tæma hugann. Mér var bent á efni á Youtube og ég hlustaði á ýmsar tegundir slökunartónlistar. Eitthvað tengdi ég ekkert við og fannst of framandi, einkennilegt og hallærislegt. Týpískir fordómar byrjandans.

Ég fann loks efni eftir mann sem heitir Jason Stephenson. Hann er með dásamlega þægilega og vinalega rödd sem leiðir mig inn í leyndardóma slökunar. Dætur mínar biðja mig um „kallinn“ (Jason, sko) þegar þær fara að sofa og þær læra í leiðinni enskt slökunarmál og bæra stundum varirnar í takt við það sem hann segir. Farnar að kunna þetta utan að.

Í dag slaka ég á á ótrúlegustu stöðum. Án Jasons. Ef ég lendi á rauðu ljósi, þá loka ég augunum í tuttugu sekúndur og einbeiti mér að andardrættinum. Líka þegar ég fer í klippingu og holufyllingu hjá tannlækninum. Það þarf ekki nema nokkrar mínútur í senn. Dreg djúpt andann…og blæs aftur út. Og hugsa bara um það.

Nýverið bætti ég við þakklæti fyrir að geta dregið andann yfirleitt. Það er ótrúlega áhrifaríkt. Mæli með því.