Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, hefur staðið í miðri hringiðu og aðdraganda falls íslensku ríkisstjórnarinnar sem nýkjörinn stjórnarformaður Bjartrar framtíðar. Ærin verkefni bíða Guðlaugar í stórum embættum, sérstaklega þegar óvenju stutt er á milli alþingis- og sveitarstjórnarkosninga. Fjarðarpósturinn fékk Guðlaugu í smávegis yfirheyrslu.

Hvað kom til að þú ákvaðst að bjóða þig fram til stjórnarformanns BF?

Ástæðurnar voru í grunninn þessar: Mér fannst mikilvægt að virkur fulltrúi á sveitastjórnarstigi hefði öfluga rödd innan forystu flokksins. Ég hef haldgóða reynslu af sambærilegu hlutverki sem formaður BHM og nýt mín vel í slíkri vinnu. Það var skorað á mig úr ýmsum áttum og rúsínan í pylsuendanum; Ég vildi auka viðbragðsflýti Bjartrar framtíðar við áreiti jafnt innan sem utan flokks. Ég verð víst seint sökuð um vanefndir á því fyrirheiti.

Hvernig er að standa mitt í þessari hringiðu í kjölfar falls ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar, svona nýtekin við þessu embætti?

Það er merkilega kunnuglegt ef satt skal segja. Ég tók við formennsku í BHM árið 2008, korter í hrun. Fór beint úr fæðingarorlofi inn á gafl í Stjórnarráðinu og Karphúsi að tala máli míns fólks. Frá kaffistofu sjúkraþjálfara á Borgarspítalanum og eigin eldhúsi í beinar útsendingar í fjölmiðlum. Árið 2014 komum við í Bjartri framtíð í Hafnarfirði síðan á fljúgandi fart inn í bæjarstjórn í alls óvæntri lykilstöðu. Fyrsta bæjarstjórnarfundinum sem ég hef upplifað um ævina þurfti ég að stýra sjálf sem forseti. Í báðum þessum hlutverkum var á brattann að sækja og talsverður mótvindur, en að sama skapi þétt og gott bakland að styðjast við. Ég er þakklát fyrir þessa reynslu núna þó hún hafi alveg kostað sitt.

Hvernig gengur að samræma þetta með embætti formanns BF í Hafnarfirði og forseta bæjarstjórnar?

Í grunninn er þetta mjög náttúruleg blanda. Ég hef meiri áhyggjur af „dagvinnunni“ minni í Háskóla Íslands, þar sem ég sinni 50% starfi verkefnastjóra í klínískri kennslu. Það er vissulega sveigjanleg vinna með þéttu teymi samstarfsfólks sem vissi að framundan væri kosningavetur, en þessi staða er auðvitað óvænt sem nú er komin upp.

Svo er það samspilið milli landsmála og bæjarmála. Hér í Firðinum hef ég átt náið og gott samstarf með bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, þrátt fyrir ýmis átök á grunni ólíkrar stefnu og hefða. Mér þykir vænt um þau öll og hef upplifað gagnkvæman heiðarleika í okkar samskiptum, þar sem hver hefur staðið fast á sinni skoðun. Enda höfum við skilað góðu verki sem meirihluti. Það væri hins vegar óraunsætt af minni hálfu að halda að hlutverk mitt sem stjórnarformaður smiti ekki inn í bæjarstjórnina, þó svo enn eigi eftir að koma í ljós hver niðurstaða þess verður.

Hvernig líst þér á að framundan sé kosningabarátta bæði fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar, með örfárra mánaða millibili?

Helsti kosturinn sem ég sé er að línurnar hafa skýrst verulega undanfarna daga hvað það varðar að draga fram muninn á erindi Bjartrar framtíðar og annarra, aðallega eldri, flokka í stjórnmálin. Bjarni Benediktsson hjálpaði verulega við það verkefni í ræðu sinni í Valhöll, þar sem hann sýndi fullkomið skilningsleysi á því að siðferðileg grundvallarafstaða geti trompað völd, að grasrót geti talað saman yfir internetið og kosið rafrænt. Að rætur geti legið í gildum en ekki fjárhagslegum bakhjörlum. Að aftur sé kominn fram flokkur á sjónarsviðið sem er tilbúinn að standa undir kjörorðinu „gjör rétt, þol ei órétt“.

Ég vona frá dýpstu hjartarótum að unga kynslóðin láti til sín taka í þessum kosningum, að okkar unga fólk láti ekki Brexit andann svífa hér yfir vötnum heldur taki framtíð sína í eigin hendur.

Með hvaða hugsjónir að leiðarljósi fórst þú í stjórnmál upphaflega og hvað varstu gömul þegar þessi áhugi kviknaði?

Formennskan í BHM gegnum afleiðingar bankakreppunnar svipti mig sakleysi. Ég átti bein samskipti við þrjár ríkisstjórnir í röð – Geir og Ingibjörgu Sólrúnu, Jóhönnu og Steingrím og loks Sigmund Davíð og Bjarna. Það var mér áfall að sjá hversu lík nálgunin var í raun, þrátt fyrir ólíka flokka og einstaklinga. Sömuleiðis varð ég fyrir vonbrigðum með aðila vinnumarkaðar, sem fylgja að mínu mati mjög gamaldags forskrift.

Ég hef alltaf haft nánast líkamleg ofnæmisviðbrögð gagnvart pólitík og steig til dæmis aldrei inn á kosningaskrifstofu fyrr en við opnuðum slíka sjálf í Bjartri framtíð. Ég hef aldrei viljað kenna mig við flokk, frekar hlaupið í hina áttina en eiga það á hættu. Svo sá áhugi var einfaldlega ekki til staðar.

Svo kom að því að mér fannst ég eiga um tvennt að velja, annað hvort að yfirgefa landið eða leggja mitt af mörkum til að breyta því. Ég sendi síðan skólabróður mínum Guðmundi Steingrímssyni hrós á facebook þegar hann sagði sig úr Framsókn sem leiddi til þess að ég tók þátt í því að stofna Bjarta framtíð. Kannski er það ráðið, ef maður finnur ekki sína fjöl í pólitík – að búa hana bara til sjálfur.

Ég vil starfa fyrir fólk frekar en flokk, almannahag en ekki sérhagsmuni, víðsýni umfram þröngsýni, segja það sem ég meina og gera það sem ég segi. Ég vil ekki draga fólk í dilka, ekki tala um „þau“ og „okkur“ heldur setja mannréttindi í fyrsta sæti. Ég vil að venjulegt fólk geti labbað inn í pólitík og sinnt þar þegnskyldu og svo labbað út aftur, frekar en að sú veröld mótist í útungunarvélum gamalla flokksmaskína.

Hvað finnst þér hafa komið mest á óvart í slíkum störfum og í hverju liggja mestu áskoranirnar?

Óheiðarleiki og tvöfeldni á pólitískum vettvangi hefði kannski ekki átt að koma á óvart en gerði það þó. Að fólk geti drullað yfir mann í fjölmiðlum en svo heilsað manni með bros á vör á kaffihúsi er eitthvað sem ég ekki skil og neita að venjast. Að fólki finnist eðlilegt að vera margskiptur persónuleiki, leika eitt hlutverk í opnu rými og annað bak við luktar dyr.

Ég er enn á þeim stað að reyna að breyta landinu frekar en yfirgefa það. Það er áskorun að fara ekki að nota öll trikkin í bókinni þótt ég sé farin að þekkja þau þegar ég sé þau.

 

Mynd: Olga Björt.