Í febrúar síðastliðnum birti Fjarðarpósturinn viðtal við Erlu Kolbrúnu Óskarsdóttur sem hefur þurft að þola mikla stöðuga verki eftir læknamistök í aðgerð við endaþarmssigi fyrir sex árum. Erla Kolbrún hefur tvisvar reynt að taka eigið líf eftir aðgerðina en hefur fengið sérfræðiaðstoð sem hefur hjálpað aðeins varðandi andlega líðan.

Kona að nafni Fríða Rut Heimisdóttir sá viðtal við Erlu Kolbrúnu og setti sig í samband við hana til að kynnast henni. Í kjölfarið leituðu þær í sameiningu að mögulegri leið til að bæta líkamlega líðan líka og fundu út að stofnfrumumeðferð í Kaliforníu gæti mögulega gert það. Vitað er um tilfelli þar sem sjúklingur öðlaðist 75% bata eftir eina meðferð og fullan bata eftir tvær. Erla Kolbrún þarf sjálf að leggja út fyrir þessari meðferð og er lágmarkskostnaður milljón krónur, fyrir utan ferðir og annað. Fríða Rut hefur hrundið af stað söfnun undir Facebook síðunni Betri lífsgæði – Erla Kolbrún. Þau sem hafa áhuga á að styrkja Erlu Kolbrúnu geta lagt inn á 140-26-1564, kt. 090485-3429.