Í kvöld, 1. desember, blása Sóley Stefánsdóttir og Marteinn Sindri til tónleika í Fríkirkjunni í Hafnarfirði. Tónleikarnir hefjast klukkan 21 og er aðgangur ókeypis.

Sóley Stefánsdóttir er þrítug tónlistarkona úr Hafnarfirði. Hún útskrifaðist af tónsmíðabraut Listaháskóla Íslands árið 2010. Árið 2011 gaf hún út sína fyrstu breiðskífu We Sink sem fékk afar góðar viðtökur. Síðan þá hefur hún gefið út tvær breiðskífur nú síðast á þessu ári þegar platan Endless Summer leit dagsins ljós. Sóley hefur verið iðin við tónleikahald síðastliðin 10 ár og ferðast víða um heim með tónlist sína. Að auki hefur hún gefið út þrjár smáskífur og unnið að tónlist fyrir leikhús, kvikmyndir, dansverk og stuttmyndir.

Marteinn Sindri er tuttugu og átta ára aðfluttur Hafnfirðingur. Á síðustu misserum hefur hann verið að hasla sér völl sem lagasmiður og textahöfundur. Hann býr að fjölbreyttri tónlistarreynslu, lærði klassískan píanóleik, hefur leikið djassmúsík og starfað með ýmsum hljómsveitum. Marteinn vinnur að upptökum á fyrstu hljóðversplötu sinni sem væntanleg er á næsta ári. Í apríl kom út fyrsta smáskífa plötunnar, Spring Comes Late Sometimes.

Tónleikarnir hlutu styrk úr menningarsjóði Hafnarfjarðarbæjar og eru unnir í góðu samstarfi við Fríkirkjuna og Jólaþorpið í Hafnarfirði. Er þessum aðilum og starfsfólki Fríkirkjunnar og Hafnarfjarðarbæjar þakkað hjartanlega fyrir stuðninginn og velvildina sem verkefninu hefur verið sýnd.

http://soleysoley.is/

https://www.facebook.com/soleysoleysoley

 

marteinnsindri.com

facebook.com/marteinnsindri

https://www.youtube.com/watch?v=kKEuEwbHR-E