Björk Jakobsdóttir leikstjóri.

Leikfélag Flensborgarskólans frumsýndi á dögunum söngleikinn Pitz Pörfekt og er það í fyrsta skipti sem hann er sýndur á Íslandi. Verkið er innblásið af samnefndri mynd sem hefur farið sigurför um allan heim. Pitz Pörfekt er hugljúft leikrit stútfullt af gleði, dansi og frábærri a-capella tónlist! Við ræddum við leikstjórann Björk Jakobsdóttur, en Hallur Ingólfsson er tónlistarstjóri og Lilja Dögg Gunnarsdóttir söngstjóri. 

„Ferlið í þessari sýningu byrjaði með því að velja verk. Við höfðum jú sett upp Mormónabókina í fyrra sem var gríðarlega metnaðarfullt verk og vildum náttúrulega setja upp jafn flotta sýningu í ár og vera með nýstárlega og hugrakka nálgun á verk sem fellur vel að menningarheimi menntaskólanema. Eftir að hafa skoðað misgamla og frekar þreytta söngleiki þá höfðum við vídeókvöld, leikstjóri og nefnd, og horfðum á nokkrar vinsælar söngvamyndir. Pitch perfekt bar þar af. Verkið er n.k. Grease unglinga í dag,“ segir Björk.

Drifið áfram að stelpum í ár

Einnig hafi heillað þau að verkið í ár sé drifið áfram af stelpum því að í fyrra voru strákar í aðalhlutverkum. „Við ákváðum að kýla á það, þrátt fyrir að þetta sé söngleikur án hljóðfæra og öll lög eru bara sungin. En þetta gengur ef maður finnur mega snillinga til að vinna með sér eins og Hall og Lilju og svo voru bakraddir krakkanna teknar upp í stúdíói til fyllingar í lögum.“ Notast sé við 12 míkrafóna. „Þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel og við erum með marga mjög efnilega söngvara og leikara sem hafa lært gríðarlega af þessu ferli, bæði í söng, vinnuaga og hópefli.“

Mikill vöxtur og atvinnutaktar

Björk segir að andinn í hópnum hafi verið algerlega frábær. „Auðvitað tók smá tíma að hrista saman hópinn og búa til þennan leikhúsanda af ást og öryggi sem verður að ríkja í hópnum. Það er ekki hægt að leika vel nema að vera öruggur í hópnum og hafa leyfi til að mistakast og fíflast aðeins á sviðinu. En krakkarnir hafa vaxið ótrúlega og sýna þvílíka atvinnumennsku og sjálfsöryggi í vinnu, fókus og tilsögn. Það er aldrei neitt vesen. Þau taka athugasemdum einstaklega vel. Aldrei neitt drama. Leikhúsvinnan kennir okkur nefnilega svo mikið meira en leiklist.“ Fjölmargir séu gríðalega efnilegir í hópnum sem eigi eflaust eftir að feta hinn skapandi listaveg og svona sýning auki líkurnar á að þau verði betur búin undir framhaldsnám og inntökupróf.

Búið að ákveða næsta verk

Aðspurð segist Björk ekki lengur hafa tölu á sýningum sem hún hefur leikstýrt. „Ég er orðin það gamall hundur í sportinu. Ég hef leikstýrt atvinnufólki, áhugaleikfélögum, menntaskólum og erlendis nokkru sinnum. Næsta gigg er að setja upp Moulin Rouge í Hörpu með landsliði leikara og tónlistarfólks. En uppáhaldið mitt er að vinna með ungum framtíðarlistamönnum og búa til nýjar spennandi sýningar sem höfða til ungs fólks. Við í Gaflaraleikhúsinu erum gríðarlega stolt af ungmennasýningunum okkar sem við gerum alltaf af atvinnumennsku.

Næsta sýning sem við gerum og fengum styrk frá leiklistaráði til að gera heitir „Fyrsta skiptið“ og fjallar um fyrsta skipti unglinga í ýmsu; fyrsta kossinn, ástina, ástarsorgina, blæðingarnar, sáðlátið, kvíðakastið, kynlífið, höfnunina o. s.frv. Sem sagt skemmtilegur og einlægur spegill á það sem að ungt fólk er að upplifa í dag. Við hlökkum til að sýna ykkur það næsta haust. En núna er það Pitz Pörfekt og ég mæli svo sannarlega með þeirri sýningu fyrir alla Hafnfirðinga 6 ára og upp úr,“ segir Björk.

Mynd af Björk: ÓMS.

Aðrar myndir frá Gaflararleikhúsinu.