Ástvaldur Traustaon tók við stjórn Karlakórsins Þrasta síðastliðið haust og síðan þá hefur verið annasamur tími hjá kórnum. Framundan eru Tondeleyo-tónleikar í Bæjarbíó næstkomandi laugardag og flutt verða Leikbræðralög. Við hittum Ástvald sem sagði okkur aðeins frá þessu.

„Ég ólst upp við gömlu login því ég var svo mikið heima hjá afa og ömmu. Afi minn söng 2. tenór í Leikbræðrum. Amma var oft við píanóið og spilaði undir. Mér þykir afar vænt um þessi lög enda fjalla textarnir oftast um ástina og lífið og lögin eru rómantísk og fáguð,“ segir Ástvaldur dreyminn á svip. Hann tók við stjórn Þrastanna sl. haust og sá tími hefur verið afar viðburðaríkur.

„Við hófum vetrarstarfið á því að taka þátt í Kórar Íslands og komumst þar í undanúrslit. Síðan tók við undirbúningur fyrir Jólagesti Björgvins sem Þrestirnir hafa tekið þátt í síðastliðin 10 ár. Alltaf jafn gaman enda sérdeilis glæsilegir jólatónleikar hjá Bó. Strax eftir áramót byrjuðum við svo að undirbúa vortónleikana okkar. Það er mikil vinna að setja upp svona tónleika. Útsetningarnar eru flestar eftir Carl Billich sem var ótrúlega flinkur útsetjari, vel menntaður tónlistarmaður sem var ættaður frá Austurríki. Svo má náttúrulega ekki gleyma því að Guðrún Gunnarsdóttir verður með okkur og syngur nokkur lög af sinni alkunnu mýkt og einlægni. Það eru reyndar ekki Leikbræðralög. Jónas Þórir leikur svo undir og hljómsveit úr Tónlistarskóla Hafnarfjarðar sem leikur með.“

Mikið bræðralag í kórnum 

Ástvaldur segir samstarfið hafa gengið mjög vel enda séu kórfélagar allt góðir drengir og mikið bræðralag í kórnum. „Við förum í gegn um þykkt og þunnt saman, syngjum í afmælisveislum og jarðarförum og allt þar á milli. Tónlistin á tónleikunum sem framundan séu komi fyrst og fremst til vegna tengsla við Ástvalds við Leikbræður. „Mér datt strax í hug að viðra þetta við þá og í staðinn fyrir að segja: „Hættu þessu þvaðri um hann afa þinn!“ eins og menn hafa lent í, þá tóku þeir vel í þetta,“ segir Ástvaldur og hlær.

Auk fyrrnefnds efnis mun kórinn einnig syngja einhverja karlakórastandarda rétt til að treysta grunninn og heiðra hefðina. „Síðast en ekki síst, þá fórum við í samstarf við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og munu lengra komnir nemendur úr rytmísku deildinni sjá um undirleikinn.“ Spurður um markhóp áhorfenda segir Ástvaldur það vera alla sem unna góðum og kraftmiklum kórsöng. „Eins og kom í ljós í Kórar Íslands þá er ótrúleg gróska í kórastarfi hér á Íslandi. Þetta er að mínu mati einstakt, enda er söngurinn hinn besti lífsins elixír.“

 

Tónleikarnir verða í Bæjabíó laugardaginn 28. apríl kl. 17:00.