Um helgina fara úrslitin í Söngvakeppni Sjónvarpsins fram sem þýðir að á mánudaginn næsta vitum við hverjir verða fulltrúar Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Lissabon í vor. Keppnin á sér marga aðdáendur hér á landi sem í daglegu tali nefnast júróvision nörd. Þau vita ótrúlegustu hluti um keppnina, eins og hver hafnaði í 12. sæti í keppninni 1986 (Ketil Stokkan), fylgjast með forkeppnum í öðrum löndum og skella sér svo á Júróvisionkeppnina sjálfa, hvort sem hún er haldin í Kaupmannahöfn eða í Baku.

Hafnfirðingurinn Hlynur Skagfjörð Sigurðsson skilgreinir sjálfan sig sem Júróvision nörd og segist alltaf hafa haft lúmskt gaman að keppninni. „Sterkasta minning mín af Júróvision er líklegast frá árinu 2000 þegar Olsen bræður unnu keppnina.“ Og auðvitað á Hlynur sitt uppáhalds lag úr keppninni. „Það er erfitt að velja eitt lag, þau eru svo mörg. En eitt af mínum uppáhalds er Same heart með Mein Feingold, framlag Ísraels frá 2014.“

Miðill sem fjallar bara um Eurovision

Undanfarin tvö ár hefur Hlynur verið hluti af EscXtra teyminu sem er alþjóðlegur fréttamiðill um Júróvision keppnina og er síðan esscxtra.com vinsælasta aðdáendasíða í heimi. Í EscXtra teyminu er fólk hvaðanæva af úr Evrópu. „Miðillinn fjallar um allt sem tengist Júróvision: fréttir og tilkynningar, viðtöl og við fylgjumst með undankeppnum og rifjum upp eldri atriði og keppnir. Enda er alltaf nóg að gera í Eurovisionheiminum,“ segir Hlynur.

Smitaðist af miklum áhuga vinkonu

Hvernig kom það til að Hlynur komst inn í þetta alþjóðlega teymi? „Ein góð vinkona mín er mjög mikill aðdáandi og hefur verið að fjalla um Júróvision í mörg ár. Ég hafði áhuga á keppninni áður, en þegar maður kynnist henni er ekki hægt annað en að smitast af hennar mikla áhuga. Og þegar ég var beðinn um að vera með sumarið 2016, þá sló ég til.“

Í beinni á Youtube

Hlynur hefur fylgst vel með Söngvakeppni sjónvarpsins en hann hefur verið að taka viðtöl við alla keppendurna sem komust í úrslit fyrir EscXtra. „Við ætlum að reyna að vera í beinni útsendingu á Youtube þar sem fólk getur tekið þátt og sent inn spurningar. Við höfum líka verið með svona úti á Júróvision viðburðum eins og í London Eurovision party, þar sem margir keppendur koma og syngja lagið sitt,“ segir Hlynur, þar sem hann hefur heyrt mörg af sínum uppáhalds Júróvisionlögum.

Spáir Degi sigri

Sjálfur hefur Hlynur ekki farið á Júróvisionkeppnina sjálfa þó hana hafi farið á aðra Júróvisiontengda viðburði eins og London Eurovision partý. Hann hefur eins og áður sagði fylgst vel með kepninni hér heima en Hlynur er hrifnastur að lögunum Ég og þú, Heim og Í stormi. En hver fer með sigur af hólmi að mati Hlyns? „Mín spá er að Dagur vinnir þetta,“ segir Hlynur að lokum.

Hér er lagið sem Hlynur spáir sigri.

Mynd af Hlyni: Olga Björt

Viðtal: Ágústa Arna Sigurdórsdóttir