Andrés Þór Gunnlaugsson er líklega flestum áhugamönnum um íslenska tónlist kunnur. Hann er hafnfirskur djassgítarleikari sem hefur náð langt. Andrés gaf nýlega út plötu með frumsömdu efni. Einn fremsti djass­trommuleikari heims leikur á plötunni með honum.

Fjölskyldan á góðri stund á Von. Efri mynd frá vinstri: Árni Dagur, Andrés, Bjarki Dan. Neðri mynd frá vinstri: Sigríður Dröfn, Salka Guðrún og Þórdís Dröfn.

Fjölskyldan á góðri stund á Von. Efri mynd frá vinstri: Árni Dagur, Andrés, Bjarki Dan. Neðri mynd frá vinstri: Sigríður Dröfn, Salka Guðrún og Þórdís Dröfn.

Andrés Þór er fjögurra barna faðir, ólst upp í Norðurbænum og gerði þar allnokkur prakkarastrikin eins og hann segir sjálfur. Hann er kvæntur Sigríði Dröfn Jónsdóttur, matvælafræðingi og kennara og sonur Gunnlaugs Stefáns Gíslasonar, listmálara og Áslaugar Ásmundsdóttur.

Aðspurður hvort hann muni eftir einhverju prakkarastriki, stendur ekki á svari: „Þegar ég var tíu eða ellefu ára áttum við það til, ég og einn vinur minn, að rífa tré úr einhverjum garði upp með rótum. Ég veit ekki alveg hvers vegna en það hljómar sem mjög undarleg hugmynd í dag.“ Segir Andrés og brosir.  „Einn daginn náði eigandi garðsins mér en vinurinn náði að hlaupa í burtu og húðskammaði mig og spurði hvort ég myndi vilja láta rífa mig svona upp á hárinu. Ég skammaðist mín niður í tær og við hættum þessum asnagangi snarlega.  Hárið á mér fór reyndar að þynnast mjög snemma eftir þetta og er ég sköllóttur í dag. Ég veit þó ekki hvort það tengist þessu neitt.“

Hann hóf skólagönguna í Engidalsskóla, fór svo yfir í Víðistaðaskóla og útskrifaðist síðan sem stúdent úr Flensborgarskólanum. Andrés flutti í Setbergið á unglingsárunum en segir eftir smá umhugsun að miðbærinn sé líklega hans uppáhalds staður í Hafnarfirði.

„Maður er svolítið montinn, sérstaklega þegar maður ber sig saman við bæjarfélögin í kring, af því hvað við eigum fallegan miðbæ og skjólsælan.“

Andrés byrjaði snemma að gutla á gítarinn en hóf nám í klassískum gítarleik í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar um 12 ára aldurinn. Hann spilaði svo eins og gengur í allskyns hljómsveitum og prófaði alla tónlistarstíla. Hann færði sig svo yfir á rafgítar sem hefur verið hans aðal hljóðfæri síðan. Eftir tónó í Hafnarfirði lauk Andrés djassgítarnám í FÍH og fór þaðan í framhaldsnám í konunglega konservatoríinu í Den Haag í Hollandi. Þar lærði hann djassgítarleik og kennslufræði og lauk meistaranámi í „Jazz Performance“.

Af hverju djass?

„Í rafgítarnáminu tónlistarskólanum var kennarinn minn aðeins farinn að kynna  mér djasstónlist. En þegar ég var í Flensborg var það góður vinur minn, bassaleikari og núverandi dönskukennari við skólann, Viðar Hrafn Steingrímsson, sem lánaði mér disk með Pat Metheny. Þetta varð uppáhalds platan mín og þá fór boltinn að rúlla. Ég fór að grúska í djassinum.“

Andrés steig sín fyrstu skref sem gítarleikari með hafnfirskum hljómsveitum, t.d. Yrju, Not Correct og Villtum snyrtipinnum. Hann kynntist svo í raun atvinnumennskunni fyrst þegar hann spilaði með hljómsveitinni Sixties á sínum tíma. „Þá vorum við að spila um hverja helgi og það var mikið að gera hjá okkur.“

Ný plata

Umslag nýju plötu Andrésar, Ypsilon. Myndina tólk Andrés sjálfur á símann sinn á æfingu með syni sínum í Dvergnum á Kaplakrika. Hægt er að hlusta á og kaupa plötuna á andresthor.bandcamp.com

Umslag nýju plötu Andrésar, Ypsilon. Myndina tólk Andrés sjálfur á símann sinn á æfingu með syni
sínum í Dvergnum á Kaplakrika. Hægt er að hlusta á og kaupa plötuna á andresthor.bandcamp.com

Andrés Þór hefur gefið út 5 plötur með eigin efni og kom hans nýjasta Ypsilon út þann 10. ágúst. Það var þétt setið á útgáfutónleikunum á Jazzhátíð Reykjavíkur í Silfurbergi Hörpu.

Andrés fékk til liðs við sig einn þekktasta djasstrommuleikara heimsins um þessar mundir, Ari Hoenig, til þess að spila með sér á plötunni. Andrés segir að Hoenig sé eitt af stóru nöfnunum: „Fyrir mér er hann kannski eins og Justin Timberlake djassheimsins.“

Andrés hafði fyrst samband við Ari Hoenig árið 2014 og vildi athuga hvort hann væri laus til þessa að spila með honum og hljómsveit á Jazzhátíð Reykjavíkur. Þar small allt svo vel saman, eins og Andrés orðar það, að þeir vildu endilega gera plötu með þessum mannskap. Útkoman er sem sagt Ypsilon en ásamt Andrési og Ari Hoenig spila hinn dansk-íslenski Richard Andersson á kontrabassa og Agnar Már Magnússon á píanó.

Hvernig er líf tónlistarmannsins á Íslandi?

„Líf tónlistarmannsins er ekki endilega mjög fjölskylduvænt,“ segir hinn fjögurra barna faðir. „ Ég kenni í tónlistarskóla Hafnarfjarðar og í FÍH. Yfirleitt hefst kennsla ekki fyrr en um tvöleytið á daginn eftir að krakkarnir koma úr skólanum og tónleikar og önnur verkefni oft á tíðum á kvöldin.

Svo er ég að spila mína músík sem er yfirleitt djasstengd. Einnig er ég að spila svolítið í poppi og kántrískotnu efni þar sem ég spila á pedal steel, mandolín, dobro o.fl. sem hentar vel t.d. í bluegrass og kántrí tónlist. Ég hef mjög gaman að því að vinna svona, því þetta er allt mjög gefandi. Aðstæðurnar eru þannig hér á Íslandi að hljóðfæraleikarar vinna þvert á tónlistarstefnur. Við erum í öllu. Þó svo að ég líti á mig sem djasstónlistarmann hef ég mjög gaman að því að spila í leiksýningu, á balli með góðu poppbandi, fara í stúdíó og spila inn gítar fyrir flotta listamenn“. Segir segir hinn fjölhæfi tónlistarmaður að lokum.