Hafnfirska listamanninn og stórsöngvarann Björgvin Halldórsson þarf varla að kynna fyrir bæjarbúum. Sýningin Þó líði ár og öld opnaði í byrjun árs í Hljómahöll í Reykjanesbæ, þar sem finna má fjölda gripa úr eigu Björgvins, auk þess sem saga hans er sögð á ýmsan hátt. Björgvin mun skella sér í hlutverk safnvarðar á eigin sýningu á Ljósanótt og gefa gestum kost á spjalli og „selfís“.

Hér er saga Björgvins rakin í máli og myndum. Gestir setja á sig heyrnartól og ferðast aftur í tímann.

„Hugmyndin varð til vegna þess að það verður alltaf góð traffík í Hljómahöll á Ljósanótt. Það var bara ákveðið að kallinn færi bara í samfestinginn og yrði þarna safnvörður. Þá get ég labbað um með fólkinu og sagt hinar og þessar lygasögur,“ segir Björgvin og hlær. Hann vill færa fólkið nær sér og hafa sýninguna dálítið flæðandi og leikandi. „Fólk getur fengið sér kaffi eða öl og tekið „selfí“ með mér. Það hafa svo margir hópar komið þarna í óvissuferðir og langað að hitta mig en það hefur verið svo mikið að gera hjá mér. Núna er tækifæri til þess og ég mun gef kost á mér í haust og í vetur.“

Hluti af gíturum Björgvins, ásamt gullplötum og fleiri viðurkenningum. 

Stílabækur frá Lækjarskóla

Björgvin mun taka á móti gestum á milli kl. 15 og 18 á ljósanæturdeginum, 2. september. „Ég hlakka mikið til, enda er ég á meðal alls konar fólks á hverjum degi. Sýningin verður fram á næsta ár og þarna er ferill minn rakinn í myndum, hlutum, myndböndum og sjónvarpsþáttum. Allt frá því ég var í Lækjarskóla, en stílabækur verða til sýnis frá þeim tíma.“ Hann segir sýninguna afar glæsilega þótt hann segi sjálfur frá. „Björn G. Björnsson (í Savanna Tríó o.fl.) setti hana upp ásamt starfsfólki Hljómahallar og sýningin er miðjan og hryggjarstykkið í ár.“

Hér má vægast segja að það kenni ýmissa grasa. 

Er safnari dauðans

Í Hljómahöll er sögð saga dægurtónlistar allt frá Jónasi Hallgrímssyni og til vorra daga. „Það er mjög mikið lagt í þetta, bíósalur og 40 „ipadar“ sem hægt er að setjast niður með eða labba um og fræðast um allt mögulegt um mig. Svo má ekki gleyma öllum gripunum úr minni einkaeigu sem eru þarna til sýnis. Ég er svona safnari dauðans og áttaði mig loksins á því hvers vegna ég hafði alla tíð safnað þessu öllu. Baldvin bróðir minn er líka einn af mestu söfnurum landsins. Þetta er svona dálítil bilun en skemmtileg. Ég á 45 gítara og þarna verða 36 til sýnis í stórum glervegg,“ segir Björgvin og bætir við að það sé löngu kominn tími á að sýna almenningi þetta allt.

Mætti heiðra fleiri listamenn bæjarins

Björgvin segir sýningar í Hljómahöll vera dæmi um glæsilegt framtak sem sveitarfélag hafi sett metnað í að styðja, á meðan önnur bæjarfélög séu að loka söfnum. „Þarna er virkilega vel í lagt og tónlistarskólinn er í sama húsnæði. Bæjarfélög mega gera meira af því að heiðra sína listamenn og styrkja. Það er stöðugur straumur af listafólki sem hefur flutt í Hafnarfjörð, sem við köllum Memphis. Fólki finnst gott að búa hérna. Páll Eyjólfsson hefur gert helling og Pétur Stephensen, bassaleikarinn í fyrstu hljómsveitinni minni Bendix, er nú stór prímus mótor í að rífa upp starfið í Bæjarbíó ásamt Palla.“

Að lokum hvetur Björgvin Hafnfirðinga til að „trilla sér“ yfir til Reykjanesbæjar og sjá sýninguna í Hljómahöll og aðspurður segist hann ótrauður halda áfram með Litlu jól Björgvins, Þorláksmessutónleika sína í Bæjarbíó. Það verður þá 4. árið í röð.

Myndir frá Rokksafninu: Kristinn Kristinsson, Hafnfirðingur.