Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Hrafnista tók til starfa í jaðri byggðarinnar í hrauninu í Hafnarfirði, þar sem nú er Hraunvangur, en í júní fagnar heimilið 40 ára afmæli. Ástæðu þess að dvalarheimilið tók til starfa þar árið 1977 má í raun rekja allt til ársins 1948 þegar stjórn Sómannadagsráðs hafði til skoðunar nokkrar tillögur um staðsetningu á fyrsta dvalarheimilinu. Þá var einna helst litið til Laugarnessins í Reykjavík en árið 1950 bauð bæjarstjórn Hafnarfjarðar Sjómannadagsráði að reisa fyrsta heimilið í landi Hvaleyrar. Voru ýmsir í stjórn Sjómannadagsráðs áfram um að taka boðinu og hefjast handa, en niðurstaðan varð þó sú að hinkra þar til Reykvíkingar tækju af skarið um hvar reisa mætti í höfuðstaðnum.
 
Hrafnista-HAFN-Þorrablót-TB17088Á þessum sama tíma var Hafnarfjarðarbær að byggja eigið elli- og dvalarheimili, þar sem nú er Sólvangur, og bæjarstjórnin óskaði eftir 500 þúsund króna láni frá Sjómannadagsráði til að klára bygginguna og taka hana í notkun. Sjómannadagsráð átti talsvert fé í sjóði enda búið að stefna að byggingu dvalarheimilis alveg frá árinu 1939. Það varð úr að Sjómannadagsráð veitti Hafnarfjarðarbæ 400 þúsund króna lán í þessu skyni og nokkru síðar fengum við úthlutað lóð við Laugarás í Reykjavík þar sem fyrsta Hrafnistuheimilið tók til starfa á sjómannadaginn 1957.
 
Hrafnista-HAFN-Þorrablót-TB17084Best búna heimilið á sínum tíma
Þótt fyrsta Hrafnistuheimilið hafi risi í Reykjavík hafði Sjómannadagsráð síður en svo gefið þá hugmynd upp á bátinn að byggja í Hafnarfirði enda var þá, rétt eins og nú, knýjandi þörf fyrir heimili fyrir aldraða í þessum tveimur af stærstu útgerðarstöðum landsins eins og Reykjavík og Hafnarfjörður hafa löngum verið. Árið 1972 sótti Sjómannadagsráð um jafn stóra lóð og fékkst í Reykjavík en fékk 2,6 hektara við lóðamörk Garðabæjar, sem bauð þegar það sem upp á vantaði, 4-6 á aðliggjandi lóð. Fyrsta skóflustungan var tekin að byggingu A-álmunnar á sjómannadaginn 9. júní 1974. Þremur árum síðar, 10. nóvember 1977, tók Hrafnista í Hafnarfirði til starfa. Þar voru rými fyrir 141 heimilismann, eingöngu einbýli og hjónaíbúðir, og þótti heimilið hið glæsilegasta í alla staði og hið best búna á landinu á þeim tíma.
 
Hrafnista-HAFN-Þorrablót-TB17099Jöfn og stöðug uppbygging
Stöðug þróun hefur verið í rekstri Hrafnistu í Hafnarfirði eftir því sem árin hafa liðið. Dægradvöl fyrir 26 manns og sem um 50 aldraðir njóta þjónustu hjá, tók til starfa fyrir um aldarfjórðungi, en þar fær fólk ýmsa þjálfun og tómstundaiðkun tvisvar til fimm sinnum í viku. Ný hjúkrunarálma fyrir 85 manns, B-álman svokallaða, var tekin í notkun árið 1982 og um svipað leyti hófst bygging raðhúsa við Naustahlein og Boðahlein, skammt frá aðalbyggingunni með 56 þjónustuíbúðum. Þær tilheyra landi Garðabæjar og voru þjónustuíbúðir raðhúsanna seldar jafnóðum á frjálsum markaði fyrir kostnaðarverð. Einnig hafa verið byggð tvö þrjátíu og tveggja íbúða fjölbýlishús fyrir 60 ára og eldri við Hraunvang 1 og 3 þaðan þaðan sem innangengt er um jarðgöng til Hrafnistu. Lang flestir íbúar leigu- og eignaríbúðanna nýta sér þjónustu Hrafnistu.
 
Hrafnista-HAFN-Þorrablót-TB17064Fjölmennt samfélag
Öll rými á Hrafnistu í Hafnarfirði eru fullnýtt, einnig leiguíbúðirnar enda er hér um góðan stað að ræða með fallegu útsýni, bílakjöllurum og miklu öryggi sem felst í nálægðinni við Hrafnistuheimilið. Alls starfa um 350 manns á heimilinu og eru búa langflestir í Hafnarfirði. Er Hrafnista því einn stærsti vinnustaðurinn í bæjarfélaginu. Ásamt heimilismönnum og íbúum eignar- og leiguíbúða við heimilið er hér um að ræða samfélag um sjö hundruð einstaklinga sem er svipur fjöldi og býr í meðalstóru þorpi á landsbyggðinni.
Myndir: Frá þorrablóti Hrafnistu. ÓMS. 
hrafnista dagsrká