Vatnselgur hefur verið víða um höfuðborgarsvæðið í dag í kjölfar lægðar og leysinga og er Hafnarfjörður þar engin undantekning. Lokað hefur þurft nokkrum leiðum um hringtorg og víðar vegna djúpra polla sem þar hafa myndast.
 
Fjarðarpósturinn hafði samband við Einar Bárðarson, samskiptastjóra Hafnarfjarðarbæjar, og spurði hvað bæjaryfirvöld eru að gera í þessum málum: „Við erum bæði með okkar starfsfólk og verktaka á okkar vegum á fullu að losa um þetta. En þetta eru algjörar öfgaaðstæður á stóru svæði sem koma upp sjaldan á ári því illviðráðanlegt. Fólk var varað við veðrinu og að þetta myndi gerast. Almenningi var bent á að passa öll niðurföll og svo framvegis.“ Slíkt geti hjálpað til þegar spáð er verði eins og þessu. „Íbúar urðu við því og hafa staðið sig mjög vel í þessu og verið þolinmóðir þegar kemur að þessum stóru svæðum þar sem safnast hefur upp mikið vatn. En öll él styttir jú upp um síðir en þetta er líklega ekki síðasta lægðin í vetur þannig að baráttan heldur áfram,“ segir Einar.

Veðurhorfur á Höfuðborgarsvæðinu á morgun eru á þessa leið:

Sunnan 5-10 og stöku él í kvöld. Heldur hvassara á morgun, éljagangur og hiti um eða undir frostmarki.

Á föstudag:
Suðaustan 8-15 og él, en úrkomulítið norðan heiða. Gengur í suðaustan 18-25 með slyddu og síðar rigningu seinni partinn, talsverð úrkoma á S-verðu landinu. Hlýnandi veður.

Á laugardag:
Suðaustan 10-18 m/s, en 18-23 NA- og A-lands fram eftir degi. Talsverð rigning SA-til, en skúrir eða él á V-verðu landinu. Hiti 1 til 8 stig, hlýjast NA-lands.

Forsíðumynd: Tekin við Klukkuvelli fyrr í dag, en þar hafði myndast vænn pollur. (Alma Björk)