Stefán Karl Stefánsson, leikari og Hafnfirðingur, er látinn, 43 ára að aldri, eftir tveggja ára erfiða baráttu við krabbamein. Þetta tilkynnti Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir eiginkona hans á Facebook. Stefán Karl var einn fremsti leikari þjóðarinnar og öðlaðist m.a. heimsfrægð sem Glanni glæpur í sjónvarpsþáttunum um Latabæ.

Stefán Karl sló einnig í gegn sem Trölli í samnefndum söngleik og lék í fjölmörgum uppfærslun á fjölum íslenskra leikhúsa. Hann stofnaði samtökin Regnbogabörn, um málefni barna sem lögð höfðu verið í einelti, árið 2002. Stefán Karl var sæmdur riddarkrossi hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar og samfélags.

Lundur í Hellisgerði var tileinkaður Stefáni Karli sumarið 2017, þar sem gróðursett var fallegt reynitré. „Hingað getur fólk svo komið og hlegið,“ sagði Stefán Karl heitinn við það tækifæri, enda var ætíð stutt í húmorinn  hjá honum, þrátt fyrir erfið veikindi. „Á þessum fallegasta stað Hafnarfjarðar þar sem bæði ég lék mér svo oft sem barn og líka pabbi minn, Stefán Björgvinsson. Því verður lundurinn skírður Stefánslundur.“

Stefánarnir tveir, Stefán Karl og Stefán Björgvinsson, en Stefán eldri lést árið 2012. Hellisgerði var leiksvæði beggja feðganna. Myndin er tekin heima hjá ömmu Stefáns Karls við Hraunbrún, þegar hann var 4 ára. (Myndin var í eigu Stefáns Karls)

Margir minnast Stefáns Karls á samfélagsmiðlum í kvöld og bera þær kveðjur þess merki að hann var sannarlega elskaður.

Við hjá Fjarðarpóstinum sendum fjölskyldu Stefáns Karls, vinum og öðru samferðafólki hans, okkar dýpstu samúðarkveðju.