Steinbjörn Logason, kennari við Áslandsskóla í Hafnarfirði og grafískur hönnuður frá Flagler Collage, Flórída,  hannaði á dögunum bol sem þegar hefur vakið mikla athygli og tengist HM í fótbolta. Á bolnum stendur „VAR ÞAÐ EKKI“, orð sem flestir ef ekki allir kannast við sem fylgst hafa með íslenska karlalandsliðinu undanfarin ár. 

 

Steinbjörn er mikill bola-áhugamaður og á gott safn af allskyns bolum sem hann hefur sankað að sér á ferðalögum í gegnum tíðina. Einnig hefur hann verið duglegur að grípa með sér sniðuga boli í Dogma búðunum hérlendis. „Þennan áhuga má kannski rekja til þess að konan mín, Thelma Jónsdóttir er mikill vintage kjólasafnari og sækir mikið útimarkaði erlendis. Því var það tilvalið að á meðan hún fór í sína rannsóknarvinnu að ég hefði eitthvað fyrir stafni á þessum mörkuðum. Þau verkefni eru að vísu tvö því ég safna líka ákveðnum litlum þýskum bjórglösum á fæti með myndum ásamt því að reyna að þefa uppi boli sem segja eitthvað,“ segir Steinbjörn.

 

Hefur hannað töluvert af bolum
Steinbjörn segir í gamansömun tón að kannski sé athyglissýki að klæðast áberandi bolum en honum þykir gaman að vekja viðbrögð. „Það er oft fyndið að upplifa að fólk starir á bringuna á mér og bumbu til að lesa skilaboðin á bolunum og verður vændræðalegt þegar það loksins lítur í augun á mér. En margir hafa komið upp að mér og spurt hvar ég hafi fengið ákveðna boli. Það er skemmtilegt að hafa dálítil áhrif út á við með einföldum skilaboðum sem kæta fólk eða fá það til að hugsa.“ Einnig hefur alltaf blundað í Steinbirni að hanna sína eigin boli og hefur hann aðeins gert af því og látið prenta sem dæmi „Alveg róleg ég er kennari“ og „Það er list að kenna“ og fleiri.

Fjölskyldan á góðri stundu, að sjálfsögðu að styðja íslenska landsliðið.

Synirnir í Haukum og FH
Steinbjörn starfaði við auglýsingagerð hjá t.d. HN markaðssamskiptum og LasyTown í um 12 ár og hefur verið kennari í 5 ár eftir útskrift frá Listkennsludeild Listaháskóla Íslands. „Ég hef búið í Hafnarfirði síðan 2004, eða 14 ár og er því AFA: aðfluttur andskoti hér í bæ. Ég á tvo syni, Mána Mar sem er Haukari og Óttar Una sem er FH-ingur með Thelmu minni, sem er rekstrarstjóri fatasviðs Rauða Krossins.

Knattspyrnan litar að vonum heimilislíf fjölskyldunnar mikið og sjálfur spilaði Steinbjörn með Keflavík og lærði í USA á fótboltastyrk og Thelma fékk bakteríuna snemma þar sem faðir hennar var í gullaldarliði Keflavíkur og svo hefur hún verið dugleg að vinna fyrir Knattspyrnudeild FH. „Það lá því beinast við að reyna að sameina áhugamálin hönnun, bolina og tuðrusparkið. Eftir Evrópumótið 2016 hef ég verið að dunda mér að hanna myndir með karlalandsliðinu sem hægt er að sjá á Pinterest. Ég lét að vísu prenta tvo boli fyrir leiki kvennalandsliðsins á EM í Hollandi og á þeim stóð: Alveg róleg ég held með Íslandi.“

 

 

Tveir af bolum eftir Steinbjörn, sem sjá má á Pinterest.

Bolurinn seldur í DOGMA
Steinbjörn var búinn að hanna nokkuð marga boli af strákunum í íslenska landsliðinu fyrir HM 2018 en einhvern veginn lét hann ekki verða af því að gera eitthvað með það. „Fyrir viku langaði mig svo að prenta einn bol fyrir mig „VAR ÞAÐ EKKI“ og hafði samband við einn sem ég þekki í bransanum. Ég sendi honum hönnunina og hann var til í að prenta en langaði að prófa að setja hann í eina af búðunum sem hann rekur. Nú er bolurinn kominn í sölu hjá DOGMA í Kringlunni verslun á 2. hæð (sími 571-2299), þannig að lítill draumur er orðinn að veruleika.“
„Var það ekki“ eru orð sem karlalandsliðið notar til að fagna sigri eftir leiki og er stjórnað af sjúkraþjálfara liðsins, Friðrik Ellert Jónssyni og strákarnir öskra „jú“ á eftir.  „Mér fannst vanta góðan 100% bómullarbol til að klæðast á milli leikja á HM því keppnistreyjan sogar í sig svitafýlu og magnar upp og þá er gott að hafa einn til vara sem heldur stoltinu gangandi. Áfram Ísland!“ segir Steinbjörn að lokum.
Myndir eru í eigu Steinbjörns og Thelmu.