Fjárhagur Hafnarfjarðarbæjar hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum misserum, svo eftir hefur verið tekið. Um árabil var bæjarfélagið í gæslu hjá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, sem í reynd skerti sjálfræði bæjarins. Á síðasta ári náðist loks að koma skuldaviðmiði bæjarins undir 150% og þar með fékk bæjarfélagið aftur full yfirráð yfir fjármálum sínum. Skuldahlutfall Hafnarfjarðarbæjar varð það lægsta sem verið hafði í aldarfjórðung, eða frá árinu 1992.

Betri þjónusta með bættum rekstri

Rétt er að rifja upp að á fyrri hluta þess kjörtímabils sem nú er að renna sitt skeið á enda var ákveðið að gera umfangsmikla rekstrarúttekt á starfsemi Hafnarfjarðarbæjar. Fengnir voru ytri aðilar til að skoða þann fjölbreytta og mikilvæga rekstur sem bærinn hefur með hendi og greina hvar og hvernig mætti gera betur. Hagræðingin fólst í að finna tækifæri til samlegðar, ná niður kostnaði með auknum útboðum, og með ótalmörgum umbótum, smáum sem stórum, sem samtals töldu nærri milljarði króna á ári hverju þegar allt var talið. Sérstök áhersla var jafnframt lögð á að standa vörð um þjónustu við íbúa og fyrirtæki og beinlínis auka hana þar sem tækifæri væru til þess.

Álögur og gjöld Hafnfirðinga lækkuð

Samhliða umbótum í rekstri bæjarins hefur áhersla verið lögð á að stilla álögum og gjöldum á íbúa í hóf og lækka þau enn frekar eftir því sem kostur er. Fimmta árið í röð eru dvalargjöld á leikskólum óbreytt, sem má teljast eindæmi. Til mótvægis hækkunar fasteignamats af hálfu ríkisins, sem hefði aukið útgjöld húsnæðiseigenda í bænum umtalsvert, gekkst Hafnarfjarðarbær fyrir að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts og holræsa- og vatnsgjalds. Að öðru leyti hefur gjaldskrám bæjarins að mestu leyti verið haldið óbreyttum miðað við verðlag. Loks ber að minna á lækkun útsvars á sl. ári, en með því sleit Hafnarfjörður sig úr hópi þeirra sveitarfélaga sem leggja á íbúa sína hámarksútsvar.

Við erum á réttri leið

Þau umskipti sem hafa orðið í fjármálum Hafnarfjarðar eru ekki sjálfgefin. Þau eru afrakstur ákvarðana þeirra fulltrúa sem íbúar Hafnarfjarðar kusu til að fara með stjórn bæjarmála og árangur þeirra fjölmörgu starfsmanna bæjarins sem dag hvern leggja metnað í að reka nútímalegt fyrirmyndarbæjarfélag. Sterkur fjárhagur Hafnarfjarðar er forsenda þeirrar velsældar sem við viljum sjá áfram í Hafnarfirði og ætlum að efla enn frekar. Við erum á réttri leið.

Kristinn Andersen

Höfundur er verkfræðingur, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins