Ég þekki fullt af fólki með allskonar óþol. Ég þekki fólk með mjólkuróþol, glútenóþol, eggjaóþol, ananasóþol og allskonar. Það óþol sem er held ég útbreiddast á Íslandi er samt stjórnmálaóþol. Það er ótrúlega algengt. Fólk fæðist samt yfirleitt ekki með óþol. Ekki heldur stjórnmálaóþol. Það er eitthvað sem vex innra með fólki með árunum. Það sem hefur áhrif á vöxt stjórmálaóþols er m.a. svik, prettir, bakstungur, innantóm loforð, yfirborðsmennska og deilur. Allskonar hlutir sem virðast fylgja stjórnmálum og gera það að verkum að líkaminn byggir upp sitt eigið varnakerfi til að hafna þeim.

Það er samt ótrúlega óhollt fyrir okkur að hafa stórnmálaóþol. Það er óhollt fyrir okkur persónulega, fjölskyldur okkar og samfélagið allt. Stjórnmál eru nefnilega órjúfanlegur partur af þessu öllu. Stjórnmálaóþol veldur því að við gefum öðrum aukna ábyrgð á umhverfi okkar og framtíð. Og það jafnvel þó við vitum að sumir þeirra hafi allt annað en okkar velferð og áfangastað í huga. Þetta er svona svipað og að fara inn í flugstöð á leiðinni til Tene en ganga svo bara inn um næsta útgang sem við sjáum í þeirri von að lenda í réttri vél. Þegar flugmaðurinn tilkynnir svo að við séum á leiðinni til Bergen verðum við brjáluð en sitjum samt sem fastast, pottþétt á að hann átti sig á að við erum ekki að fara til Bergen heldur Tene. Þegar við lendum svo í Bergen, með ekkert nema sundföt í töskunni, verðum við fjúkandi reið og missum alla trú á flugmönnum.

Það er okkar að hafa áhrif. Það er okkar að marka þá stefnu sem við viljum að samfélagið taki. Það er okkar að ákvarða áfangastað og viðhalda stefnunni. Ef við gerum það ekki sjálf þá gerir það einhver annar fyrir okkur. Við getum þá varla verið hissa þegar við lendum í allt öðru umhverfi og í allt öðru samfélagi en við vildum.

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram með Bæjarlistanum í Hafnarfirði í komandi sveitastjórnarkosningum. Bæjarlistinn er óháð framboð fólks úr öllum áttum, reynsluboltum í bæjarmálum og nýliðum, sem eiga það sameiginlegt að hafa mikinn metnað fyrir Hafnarfirði. Mér þykir vænt um Hafnarfjörð. Hérna hef ég mitt húsnæði með minni fjölskyldu og hérna ganga börnin mín skóla, stunda íþróttir og tómstundir og eiga sína vini. Ég nota gatnakerfi bæjarins og þá þjónustu sem hann býður upp á. Ég nýt umhverfissins og náttúrunnar allt í kring og anda að mér loftinu. Allt eru þetta atriði sem skipta mig máli.

Við sem störfum í lögreglunni fáum mjög breiða og góða sýn á samfélagið. Það er því mikilvægt að fólk í okkar stöðu grafi ekki höfuðið í sandinn. Ég veit hversu mikilvægt það er að samgöngurnar gangi vel og séu öruggar. Það verður t.d. að klára tvöföldun Reykjanesbrautarinnar helst í gær. Ég veit líka hversu miklvægar forvarnir eru fyrir unga fólkið okkar. Þá er ég að tala um forvarnir í víðum skilningi en ekki bara um fyrirlestra í skólastofum. Við erum að tala um einstaklinga sem eru jafn fjölbreyttir og þeir eru margir og það er hlutverk okkar sem samfélag að þjóna misjöfnum þörfum þeirra, aðstoða og hjálpa þeim að finna stefnu sína og tilgang, í gegnum skólakerfið, íþróttir, tónlist og hverskonar tómstundir sem hentar hverjum og einum.

Ég veit líka hveru mikilvægt það er fyrir fólk að fá þak yfir höfuðið, sem og félagslega þjónustu og aðstoð við hæfi þegar á þarf að halda. Þetta er bara brot af þeim verkefnum sem ég vil hafa áhrif á. Ég vil ekki láta stjórnmálaóþol verða til þess að ég standi með hendur í vösum og vona það besta. Nú er það ykkar, kæri Hafnfirðingar, að ákveða hvort þið treystið mér í verkið. Ef svo, þá lofa ég að gera mitt besta. Ég mun líka reyna að sjá til þess að stjórnmálaóþol okkar minnki með jákvæðri nálgun og opnu samtali. Við erum öll í þessu saman.

Birgir Örn Guðjónsson

Lögreglumaður og nútímafræðingur, skipar 2. sæti í Bæjarlistanum í Hafnarfirði