Um 100 þúsund lesendur koma á vefsíðuna Fótbolti.net í hverri viku og hún er meðal mest sóttu síða landsins. 85% þeirra eru karlar og 75% koma í gegnum snjallsíma. Hafliði Breiðfjörð stofnaði síðuna fyrir 15 árum og er einnig framkvæmdastjóri. Hann ólst upp við í kringum FH enda voru foreldrar hans báðir í sjálfboðaliðastörfum fyrir félagið. Við spjölluðum við Hafliða um þessi tímamót og starfið sem hann elskar.

„Ég var á tímabili öllum stundum í Kaplakrika og heillaðist af sportinu. Svo finnst mér líka gaman að segja frá og miðla til fólks sem var ekki á staðnum, hvort sem það er í myndefni eða texta og þar kemur fjölmiðlaáhuginn,“ segir Hafliði, sem bjó við Selvogsgötuna til 6 ára aldurs, fór þaðan á Sléttahraunið og var restina af æskunni þar. „Ég gekk allan tímann í Lækjarskóla og færði mig svo yfir í Iðnskólann í Hafnarfirði.“

Hafliði, til vinstri, ásamt systkinum sínum við Strandgötuna þegar hann var 14-15 ára. 

Lén með .is endingu of dýrt

Tíu ára var Hafliði farinn að stelast í litlu myndavélina hans pabba síns og taka ljósmyndir á handboltaleikjum í íþróttahúsinu við Strandgötu. „Þetta þróaðist svo út í að ég útvegaði mér gulu spjöldin sem dómrarar nota því á þau var svo þægilegt að fylla út tölfræði leiksins á meðan honum stóð. Þrátt fyrir augljósan áhuga á fjölmiðlun hafði ég ekki hugmynd um hvað mig langaði að læra þegar ég fór í framhaldsskóla en sem betur fer endaði ég samt í því sem ég elska. Fjölmiðlaáhuginn blundaði alltaf innra með mér og þegar internetið var enn í flugtaki upp úr aldamótum fór ég að sjá tækifæri í að gera eitthvað úr þeim áhuga. Þegar ég fór að leita að léni fyrir nýja vefinn var ljóst að mér fannst of dýrt að kaupa lén með .is endingu og endaði á að kaupa lénið fotbolti.net. Þetta þótti undarlegt á þeim tíma en ég sé ekki eftir ákvörðuninni því það þekkja allir fótboltaáhugamenn þetta lén í dag.“

Skjáskot af vefsíðu fótbotla.net fyrir 15 árum. 

Góð blanda af áhugamálum

Hafliði segir að fjölbreytni í starfinu sé mikilvæg og að geta blandað saman áhugamálunum. „Mér finnst æðislegt að taka viðtöl, taka ljósmyndir og fjalla um leiki. En líka að hugsa um reksturinn, starfsmannahaldið, skipuleggja ferðalögin og fylgja landsliðinu eftir um allan heim. Það er meira að segja stundum gott að skipta um gír og þrífa skrifstofuna.“ Fótbolti.net fjallar um eitt stærsta áhugamál fólks í dag, knattspyrnu, og lesendur koma beint inn á vefinn til að lesa fréttir en lenda ekki þar fyrir tilviljun af samfélagsmiðlum eins og er algengara með lestur frétta í dag. „Þar kemur samt starfsfólkið inn því við höldum fréttaflæðinu mjög stöðugu með 40-50 nýjum fréttum af fótbolta á hverjum einasta degi og á stórum dögum getur sá fjöldi tvöfaldast. Lykillinn að góðu gengi fótbolta.net er starfsfólkið sem lifir fyrir verkefni sín.“

Ómerkileg framkoma við Heimi Guðjóns

Okkur fannst ekki hægt að sleppa Hafliða án þess að spyrja hann álits um þjálfaramál meistaraflokks karla hjá FH. „Augljósasti kosturinn fyrir FH var Ólafur Kristjánsson, góður þjálfari sem er uppalinn í FH og var á lausu. Hann þjálfaði mig í handbolta í nokkur ár og er virkilega flottur náungi. Hinsvegar finnst mér framkoman við Heimi Guðjónsson mjög ómerkileg. Hann þjónaði félaginu í 18 ár og í stað þess að hafa flottan viðskilnað við hann og þakka honum frábært framlag alla þessa öld er skilið við hann á þann hátt að hann eigi erfitt með að fá sér annað sambærilegt starf. Þarna er farið illa með orðspor félagsins og megi þeir sem stjórna félaginu í dag hafa skömm af því hvernig komið var fram.“

 

Hafliði tekur sérstaklega fram, á jákvæðum nótum að lokum, að einhvern tímann hafi hann séð þessa fleygu setningu: Finndu þér starf sem þú elskar og þú þarft aldrei að vinna aftur. „Ég veit ekki hver á þessi ummæli en ég held að ég geti fullyrt að þau eigi við hjá mér og öllum sem starfa hjá Fótbolta.net. Það er ekki annað hægt en að vera stoltur af því.“

 

Mynd af Hafliða í stuðningsmannastúkunni í Kaplakrika: Olga Björt. 

Aðrar myndir í eigu Hafliða.