Sigríður Margrét Jónsdóttir, eða Sigga Magga í Litlu Hönnunar Búðinni, heldur utan um glænýjan viðburð, Lifandi Thorsplan, sem fram fer næstkomandi laugardag. Þar verður megináherslan á upplifanir fyrir börn og fjölskyldur þeirra og heilmargt verður í boði.   

Sigga Magga segir að smávegis pælingar hafi verið með dagetningu fyrir þennan viðburð en eftir að hafa spjallað við Pál Eyjólfsson hafi verið ákveðið að „teika“ bæjarhátíðina Hjarta Hafnarfjarðar. „Það er alveg tilvalið því okkar viðburður hefst klukkan 12 og lýkur klukkan 17. Þá byrjar dagskráin hjá Hjarta Hafnarfjarðar og Strandgatan verður lokuð á þessu svæði á sama tíma.“

 

Verður vonandi tvisvar á ári

Meðal þess sem verður í boði á Lifandi Thorsplani er RISA snákaspil, mylla (spil), sápukúlu-tilraunastofa, „mini mömmu-makover“ á vegum Octagon, Kátt á Klambra verður með rokkneglur og tattoo fyrir börnin, lítil útgáfa af hafnfirska Pylsuvagninum, Sumarlestur á Bókasafni Hafnarfjarðar, Veltubíllinn, markaðsstemning með íslenskum hönnuðum og listamönnum og tónlist mun óma um svæðið. „Við stefnum á í framtíðinni að hafa þennan viðburð tvisvar á ári, í byrjun júní og um þetta leyti í ágúst. Vonandi mun hann síðan stækka og laða enn fleiri að því veðrið á þessum tíma er oft yndislegt og allir komnir heim í rútínu eftir sumarfrí,“ segir Sigga Magga.

Mynd: Olga Björt

Logo: Sigga Magga