Örvar Þór Guðmundsson er giftur þriggja barna faðir úr Firðinum fagra eins og hann orðar það sjálfur. Nú um mánaðamótin stofnaði hann góðgerðasamtökin Samferða sem vinna að því að hjálpa fjölskyldum, sem eiga um sárt að binda, að halda jólin.

Örvar bjó í Norðurbænum frá fæðingu til nítján ára aldurs. Bjó á Heiðvangi, Hjallabraut og Miðvangi. Hann segir það hafa verið frábært að alast upp í þessu hverfi enda gífurlega mikið af börnum þarna á þessum árum. Hann gekk í Engidalsskóla og fór svo í Víðistaðaskóla í 8.–10. bekk. Örvar lýsir sér sem sköllóttum, hamingjusömum, stríðnum Haukamanni. Hann starfar sem viðskiptastjóri hjá Prentmet en hann hóf störf þar í mars 1995.
Fyrir nokkrum árum hóf Örvar að safna fé fyrir fjölskyldur sem á því þyrftu að halda fyrir jólin. Það hefur heldur betur undið upp á sig og undanfarin jól hefur hann safnað og veitt fjölskyldum styrki upp á margar milljónir.
„Ég var nú svo einfaldur og hélt að við hefðum það öll svona líka ljómandi fínt um jólin. Ég var bara upptekinn af því að hugsa um bossann á mér. Svo einn daginn komst ég að því að svo var ekki. Þar sem ég er svo heppinn að eiga konu og heilbrigð þrjú börn fannst mér sjálfsagt að reyna að hjálpa eitthvað til.“

Einstæð móðir á FM957 upphafið
Örvar segir þetta hafa byrjað þannig að hann hafi heyrt konu vinna jólatré og 15.000 króna inneign í fataverslun. FM 957 hafi valið hana úr ábendingum sem þeir fengu. Hún hafi hágrátið af þakklæti fyrir þennan vinning því hún átti 2.000 krónur eftir til að halda jólin. Þetta var 2. desember og hún átti eftir að gera allt.
„Maður var bara í molum að heyra þetta. Ég sagði við sjálfan mig að ég myndi ekki setjast niður á aðfangadag fyrr en ég væri búinn að gera eitthvað fyrir hana. Setti mig í samband við þennan útvarpsmann og fékk upplýsingar um þessa konu. Ég setti í kjölfarið söfnun í gang á Facebook-síðunni minni og á einum degi höfðum við fésbókarvinir mínir safnað 150 þúsund krónum fyrir hana.“
Facebook-vinir Örvars báðu hann svo um að endurtaka leikinn ári síðar. „Ég fékk svo mikinn meðbyr að ég ákvað að fá aðstoð við að finna tvær fjölskyldur langveikra barna. Ég ætlaði að reyna safna 300.000 krónum og gefa þeim. Hins vegar varð þetta gríðarleg sprengja og við söfnuðum 1.700.000 kr. sem endaði með því að tólf fjölskyldur langveikra barna nutu góðs af.“
Síðustu tvö ár hefur Örvar verið í samstarfi við Kraft sem er félag ungs fólks með krabbamein. „Ég er áfram að vinna með þeim í dag ásamt séra Vigfúsi Bjarna Albertssyni sem er verndari samtakanna okkar. Hann vinnur á Barnaspítala Hringsins. Um jólin 2014 og 2015 söfnuðum við um sjö milljónum króna.“

Samferða
Örvar hefur nú stofnað góðgerðasamtökin Samferða til þess að halda betur utan um verkefnið og söfnunina.
„Ég var með þetta fyrstu þrjú árin bara á mínum Facebook-vegg. Það voru á bilinu 200–300 manns að gefa í þessa söfnun. Nú fannst mér tími til kominn að búa til þessi samtök, svo allir sem vilja geti tekið þátt, ekki bara mínir persónulegu Facebook vinir. Það sem er ánægjulegast í þessu er að maður fær aldrei nei. Það vilja allir hjálpa til í þessu. Sjálfsagt er það stór þáttur í að allir gefa vinnu sína og allt sem safnast rennur óskipt til viðkomandi fjölskyldna. Sem sagt, enginn kostnaður, sem er fáheyrt myndi ég halda í þessum heimi. Þetta byrjaði sem lítið og krúttlegt konsept en svo hef ég fengið frábærar undirtektir í þessu þannig að maður heldur þessu áfram á meðan svo er.“
Samferða – góðgerðasamtökin munu verða starfandi allt árið. „Við í þessari fimm manna stjórn komum saman einu sinni í mánuði og gefum fólki sem á þarf að halda. Hægt er að fylgjast með okkur inni á Facebook-síðu okkar.“

Þeim sem vilja leggja þessu góða sjálfboðastarfi lið er bent á bankaupplýsingar samtakanna:
Banki: 0327-26-114
Kt.: 651116-2870