Úthlutun á styrkjum úr sjóði Friðriks Bjarnasonar og Guðlaugar Pétursdóttur fór fram í Friðriksstofu í Bókasafni Hafnarfjarðar 2. febrúar síðastliðinn. Tvö verkefni hlutu styrk að þessu sinni; Sönghátíð í Hafnarfirði og Leikið á orgel í Hafnarfjarðarkirkju. Fjarðarpósturinn var á staðnum og fangaði augnablikin. 

Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri afhendir Guðmundi Sigurðssyni styrkinn. 

Bæði verkefnin hlutu styrk að fjárhæð kr. 360.000. Fyrir hönd Guðrúnar Ólafsdóttur söngkonu, sem heldur utan um Sönghátíðina, tók móðir hennar Signý Pálsdóttir við styrknum. Signý sagði að Guðrún kæmi til landsins í maí og yrði hér í kringum hátíðina. Guðmundur Sigurðsson, organisti Hafnarfjarðarkirkju, tók við styrknum fyrir hönd Leikið á orgel í Hafnarfjarðarkirkju og sagði að vænta megi tveggja verka eftir Friðrik Bjarnason á orgelplötu sem gefin verður út, líklega á þessu ári. Á liðnu ári hafi verið 100 ár síðan Friðrik Bjarnason fékk pípuorgel í Hafnarfjarðarkirkju og er talið að það sé 2. á landinu á eftir orgelinu í Dómkirkjunni í Reykjavík.

Haraldur bæjarstjóri afhendir Signýju Pálsdóttur styrkinn, en hún tók við honum fyrir hönd dóttur sinnar, Guðrúnar Ólafsdóttur. 

Vinsælir söngvar 100 ára í ár

Auglýst var eftir styrkumsóknum í nóvember og bárust sex umsóknir. Hlutverk sjóðsins er að efla tónlistarlíf í Hafnarfirði og styrkja hafnfirska nemendur til framhaldsnáms í tónlist og fræðimenn í tónlist. Í erfðaskrá frá 1960 arfleiddu hjónin Friðrik Bjarnason og Guðlaug Pétursdóttir Hafnarfjarðarbæ af miklum hluta eigna sinna og mæltu svo fyrir að bækur og munir skyldu varðveittar í bókasafninu og að stofnaður væri sjóður til að efla tónlistarlíf í Hafnarfirði með þeim hætti er best þykir fara hverju sinni, þó einkum til eflingar sönglífs í bænum og styrkja nemendur til tónlistarnáms og fræðimenn í tónlist.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir, ein þriggja úr stjórn, leiddi viðburðinn. 

Andrés Þór Gunnlaugsson, einn stjórnarmeðlima sjóðsins, tók lagið. 

Bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Haraldur L. Haraldsson, afhenti styrkina og Andrés Þór Gunnlaugsson lék undurfallega á gítar fyrir viðstadda. Stjórn sjóðsins 2017 skipuðu Andrés Þór Gunnlaugsson, Helga Loftsdóttir og Ingibjörg Þorsteinsdóttir. Gaman er að geta þess að við afhendinguna var minnst á það að 100 ár eru í ár síðan Friðrik Bjarnason samdi lög við hið hina vinsælu texta Í Hlíðarendakoti og Sigling.

  

Í Hlíðarendakoti

 (texti: Þorsteinn Erlingsson)

 

Fyrr var oft í koti kátt,

krakkar léku saman,

þar var löngum hlegið hátt,

hent að mörgu gaman.

Úti’ um stéttar urðu þar

einatt skrítnar sögur,

þegar saman safnast var

sumarkvöldin fögur.

 

Eins við brugðum okkur þá

oft á milli bæja

til að kankast eitthvað á

eða til að hlæja.

Margt eitt kvöld og margan dag

máttum við í næði

æfa saman eitthvert lag

eða syngja kvæði.

 

Bænum mínum heima hjá

Hlíðar brekkum undir

er svo margt að minnast á,

margar glaðar stundir.

Því vill hvarfla hugurinn,

heillavinir góðir,

heim í gamla hópinn minn,

heim á fornar slóðir.

 

Sigling

(texti: Örn Arnarson)

 

Hafið bláa hafið hugann dregur,

hvað er bak við ystu sjónarrönd?

Þangað liggur beinn og breiður vegur,

bíða mín þar æskudrauma lönd.

Beggja skauta byr

bauðst mér aldrei fyrr,

bruna þú nú bátur minn.

Svífðu seglum þöndum,

svífðu burt frá ströndum,

fyrir stafni er haf og himinninn.

 

 

Myndir: Olga Björt.