Samfélagið hefur breyst hratt eins og við vitum öll og þrátt fyrir að breytingarnar voru ef til vill mun hraðari þegar iðnbyltingin ruddi sér til rúms fyrir rúmlega hundrað árum með afgerandi breytingum á lífshættum fjölda fólks þá er samfélagið enn í sífelldri þróun. Í byrjun sumars var skýrsla OECD (Starting strong) um menntun ungra barna birt og í ljós kom að íslensk leikskólabörn verja töluvert fleiri stundum í leikskólum en börn frá öðrum þjóðum. Vinnudagurinn er langur og foreldrar hafa yfirleitt ekki val um styttri viðverutíma þar sem þeir þurfa sjálfir að vera í fullu starfi. Á sama tíma benda rannsóknir til þess að geðheilsa okkar Íslendinga fari því miður versnandi og sífellt fleiri greinast með kvíða og/eða þunglyndi. Við þurfum virkilega spyrja okkur að því hvað það er sem veldur versnandi geðheilsu og hvernig samfélagið okkar hefur þróast. Við þurfum sífellt að vera vakandi og gagnrýnin á hvernig við getum sem best tryggt vellíðan barna og ungmenna því góð líðan er undirstaðan fyrir allt annað í okkar lífi. Við verðum líka að hlúa að okkar eigin líðan því til að tryggja öryggi og velferð barnanna verðum við auðvitað að muna eftir súrefnisgrímunni á okkur sjálf.

Ég tel það algjört forgangsverkefni að stytta vinnuvikuna og grípa strax til aðgerða í því máli og koma því í framkvæmd sem allra fyrst. Allar rannsóknir benda til þess að framleiðni okkar er minni en í samanburðarlöndum þar sem vinnuvikan er styttri og því væri um mikinn ávinning að ræða hvort sem það er skoðað út frá aukinni framleiðni eða fleiri samverustunda barna og foreldra þeirra. Með því að vera ávallt tilbúin að leita nýrra leiða til að bæta samfélagið okkar stuðlum við enn betur að því að upp úr grasi vaxi hamingjusamir einstaklingar með sterka sjálfsmynd og stuðlum enn frekar að vellíðan okkar allra sem erum hluti af okkar fjölbreytta samfélagi.

Linda Hrönn Þórisdóttir.

Höfundur er leik- og grunnskólakennari og skipar 3. sætið á lista Framsóknarlistans í Suðvesturkjördæmi.