Tvíburabræðurnir Sindri Snær og Andri Fannar Ingólfssynir eru fæddir 21. janúar 1999 og æfa knattspyrnu með Haukum. Þeir stunda báðir nám við Flensborgarskóla á náttúrufræðibraut og hafa átt sömu áhugamál alla tíð.

Sindri Snær og Andri Fannar voru mjög líkir nýfæddir og foreldrarnir brugðu á það ráð að klæða þá í ólíka liti til að greina þá í sundur fram að tveggja ára aldri. Þegar horft er aftan á bræðurna þá eru þeir alveg eins og það er þá helst sem fólk ruglar þeim saman. „Fyrir skömmu var ég í skólanum og einn kennarinn sem Sindri er hjá hélt að ég væri hann og fór að segja mér eitthvað um verkefni sem Sindri var að gera. Ég þurfti þá að segja: Ég er Andri! –segir Andri hlæjandi og að þetta sé alveg lýsandi dæmi um það þegar fólk ruglar þeim saman.

„Við hlæjum bara yfirleitt og leiðréttum fólk. Við eigum alveg sömu vini líka því allir sem komu þegar við vorum litlir spurðu eftir okkur báðum.“

Ansi líkir og efnilegir knattspyrnumenn. 

Tómleiki ef annar fer í burtu

Þeir bræður segjast vera mjög samtengdir og ef annar þeirra þarf að fara í burtu þá finni hinn fyrir miklum tómleika. Þeir séu traustir vinir og skynji fljótt þegar eitthvað amar að hjá hvor öðrum. Þeir eiga líka auðvelt með að nefna kosti hvors annars og Sindri segir að það sé hægt að treysta Andra fyrir öllu. „Ég veit að hann er ekki að fara að segja neinum frá nema ég vilji það. Það er stærsti kostur hans. Hann er líka mjög skemmtilegur, enda velur hann alltaf sömu áhugamál og ég. Ef manni leiðist þá getum við bara gert það sem okkur finnst báðum skemmtilegt og nýtt tímann þannig.“ Andri tekur undir þetta: „Traust skiptir miklu máli og ég get treysti Sindra fyrir öllu, enda segi ég honum nánast allt. Hann er líka mjög skemmtilegur og með sameiginleg áhugamál. Einn af hans stærstu kostum eru að hann hefur ekki mikið af göllum,“ segir hann og þeir hlæja báðir.

Eiga eins fatnað

Andri Fannar og Sindri Snær segjast líka vera frekar líkir karakterar og gott dæmi um það er að þjálfari þeirra til 7 ára í fótbolta ruglast enn í dag á þeim. „Við urðum að vera í ólíkum skóm til að greina okkur að þótt við séum aðeins ólíkari núna en áður,“ segir Sindri. Þá eiga þeir eins úlpur, jakka og skó því þeim finnst einfaldlega sömu hlutir flottir. Aðspurðir segja þeir ekki ólíklegt að þeir eigi eftir að starfa á sama sviði í framtíðinni, jafnvel hjá sama fyrirtæki eða stofna saman rekstur. „Ég held að flestir myndu vilja vera tvíburar ef þeir hefðu möguleika á því. Það er notalegt að eiga svona alltaf einhvern að,“ segir Andri.

Ný mynd: Olga Björt