Meðal listafólks sem er með aðstöðu í gamla Íshúsinu við sjávarsíðuna er Bergrún Íris Sævarsdóttir. Hún er 32 ára í og hefur þegar gefið út fjórar barnabækur og teiknað í 25. Ein þeirra, Vinur minn vindurinn, var tilnefnd til tvennra verðlauna og hefur verið gefin út á kínversku, ásamt framhaldsbókinni Sjáðu mig sumar og Viltu vera vinur minn?, sem fjallar um vináttuna og einmanaleikann. Synir Bergrúnar Írisar, Darri Freyr og Hrannar Þór, eru henni mikill innblástur í bækurnar og sá eldri gagnrýninn álitsgjafi.

 

Bergrún Íris segir gott að vera innan um aðra skapandi einstaklinga eins og í Íshúsinu eftir að hafa unnið heima í tvö ár. Þá kvikni oft hugmyndir hjá henni sjálfri. „Þegar ég var búin að vera hér í tvo daga þá hnerraði ég og einhver sagði: Guð hjálpi þér! Mér brá á góðan hátt,“ segir hún og hlær. Samvinna er Bergrúnu Írisi að skapi og hún myndskreytti m.a. bókina Búðarferðin sem Ósk Ólafsdóttir samdi. „Markaðurinn er ekki stór fyrir barnabækur á Íslandi og því verður maður að hafa alla anga úti. Ég myndskreyti mikið fyrir Menntamálastofnun og hin og þessi forlög.“

 

Úr bókinni „Viltu vera vinur minn?“ eftir Bergrúnu

Úr bókinni „Viltu vera vinur minn?“ eftir Bergrúnu

Blær er bæði

Allar persónur í bókum Bergrúnar Írisar hafa verið kynlausar.. „Mér finnst mikilvægt að börn geti mátað sig við persónurnar og að börn sem upplifa sig ekki í kynhlutverki hafi líka einhverjar persónur í barnabókum sem þau geta samsamað sig við. Það er mjög erfitt að skrifa þannig bækur því íslenskan er svo ofboðslega kynjuð. Í bókinni Búðarferðin heitir svo aðalpersónan Blær, sem er bæði stelpu- og strákanafn. Við Ósk vönduðum okkur mikið við að beygja ekki nafnið.“ Ónefndar bækur Bergrúnar Írisar eru svo Viltu vera vinur minn? og Besta bílabókin, en hún er harðspjaldabók og n.k. harmóníka sem hægt er að toga í sundur. „Ég gerði hana í samstarfi við pabba minn sem er vélfræðingur. Lesandi keyrir í gegnum söguna og öðrum megin er verkstæði og hinum megin bílabraut og hægt að taka taka bílana úr og færa þá til. Mér fnnst gaman að víkka út orðabækur, að börn læri ekki alltaf sömu orðin fyrst. Þarna erum við t.d. með skiptilykil, tjakk, pumpu.“

 

Bergrún á vinnustofu sinni, við hurðina sem félagar hennar í Íshúsi Hafnarfjarðar útbjuggu handa henni sem skilrúm,

Bergrún á vinnustofu sinni, við hurðina sem félagar hennar í Íshúsi Hafnarfjarðar útbjuggu handa henni sem skilrúm,

Vantar barnamenningarþátt

Bergrún Íris segir að það mætti vera sér sjónvarpsþáttur um barnabækur eða um barnamenningu. Barnabækur séu oftast teknar fyrir á hundavaði í menningarþáttum þótt þær skipti jafn miklu ef ekki meira máli en bækur fyrir fullorðna. „KrakkaRÚV er mjög gott og öflugt tæki og Krakkafréttir eru æðislegar. Markhópur okkar barnabókahöfunda eru börnin en það er fullorðna fólkið sem kaupir bækurnar. Það fer ekki alltaf saman það sem börnin vilja og það sem foreldrarnir halda að börnin vilji.“ Talið berst að bleika og bláa litnum og kynjaskiptingunni í leikföngum. Bergrún Íris segir að það skipti lítil börn engu máli hvaða kyn þau eru. „Eldri sonur minn er sjö ára og uppáhalds litur hans hefur lengi verið bleikur en blár hefur bæst við og ég held að það sé vegna þess að hann er kannski að upplifa að það sé ekki nógu kúl að elska bleikan.“ Hún segir Darra Frey finnast skemmtilegt að vera með sér í vinnunni og hafi mikil áhrif á verk sín. „Hann færi að teikna inn í sumar myndinar og gefur mér mjög umbúðalausa gagnrýni. Er einskonar ritstjóri á heimilinu og ég bý vel að því. Við förum saman til Svíþjóðar í mars þar sem ég mun tala við sænska krakka á ensku um bókina Vinur minn vindurinn, í norskri þýðingu. Það verður skemmtilegt og krefjandi!“

 

„Hvað verður um börnin?“

Kvíði og félagsfælni hafa lengi vel fylgt Bergrúnu Írisi og hún tekst á við slíkt með því að skora sífellt á sjálfa sig. Það að vera í svona mörgum ólíkum verkefnum krefjist m.a. þess að hún hittir margt fólk og fari í viðtöl. „Ég hef haft það fyrir reglu í lífinu að segja bara já og leyfa áhyggjunum að koma eftir á. Ég tekst þá á við þær þegar ég er búin að skuldbinda mig. Ef maður hugsar of mikið þá býr maður bara til pláss fyrir áhyggjur,“ segir hún og hlær. Hún fór heilmikið út fyrir þægindarammann í nóvember síðastliðinn þegar hún fór ein frá eiginmanninum, Andra Ómarssyni, og sonunum til bókmenntaborgarinnar Prag í Tékklandi, til að skrifa bók. „Íslendingar eru ennþá dálítið á 19. öldinni með það að þegar ég sagðist ætla ein í 6 vikur var ég sífellt spurð hvað yrði um börnin. Pabbi þeirra hefði ekki verið spurður að því sama. Eina manneskjan sem sem sýndi öðruvísi viðbrögð var Vigdís Finnbogadóttir, þegar ég hitti hana stuttu áður. Hún sagði: Flott! Svona vil ég hafa heiminn! – og Vigdís er miklu eldri en allir sem spurðu um börnin. Hún er eins þenkjandi og  ég með svona hluti. Við getum lært svo margt af henni.“

 

Velur það sem gleður

Bergrún Íris var í sex vikur ein að þvælast um Prag. Hafði aldrei verið ein á ævinni og nýtti tímann fyrir sjálfsskoðun, sat og vann í íbúð og fór svo á kaffihús kílómeter í burtu og skrifaði þar. „Þetta var ótrúlegt tækifæri og þarna varð til bók sem kemur út í haust. Hún er fyrir aldurinn 5-8 ára og verður ólík öllu sem ég hef gert. Það er svo hollt að stíga út fyrir þægindarammann eins oft og maður getur og ögra sér til að festast ekki inni í einhverri kúlu. Annars er ég orðin mjög fín af kvíðanum, er allt í einu ekki hrædd við hunda,“ segir hún kímin og bætir við að hún eigi sinn feril og ef hún einbeitir sér að honum þá verði hún bara betri mamma fyrir vikið. „Ég vil að strákanir mínir viti að það á ekkert að stoppa þá. Eina leiðin til að kenna börnunum að elta draumana sína er að gera það sjálfur og sýna það í verki.“ Spurð um ráð til foreldra sem vilja vera góðar fyrirmyndir segir Bergrún Íris: „Fáið ykkur vinnu sem nærir ykkur og gleður. Ef þið eruð skapandi, leyfið okkur hinum að njóta með. Þegar hraðinn er þannig að báðir foreldrar verða að vinna fulla vinnu og börnin eru í daggæslu á meðan, þá er eins gott að missa ekki tímann með börnunum í starf sem gleður ekki.“

 

Barnaleikrit í bígerð

Ótal margt hefur gerst á fáum árum hjá Bergrúnu Írisi og þegar hún er spurð um hvar hún sjái sig eftir tvö til fimm ár segir hún að þá verði búið að setja upp barnaleikritið sem hún er að fara að skrifa eftir að hafa fengið starfslaun til þess. „Ég hef áhuga á svo mörgu og heft trú á því að maður eigi sífellt að enduruppgötva sjálfan sig. Frumurnar okkar endurnýjast og þá geta áhugamálin það líka. Ég gæti jafnvel endað sem guðfræðingur. Ég spái þó ekki of mikið í framtíðina. Ég veit bara hvað ég þarf að klára á næstu mánuðum og vonandi verða bækurnar komnar á enn fleiri tungumál,“ segir hún að lokum.


IMG_7551