Rekstrarniðurstaða Hafnarfjarðarkaupstaðar fyrri hluta ársins var jákvæð um 908 milljónir króna en fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir að rekstrarafgangur yrði 285 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ. Helstu frávik eru að tekjur eru alls um 400 milljónum krónum hærri en áætlun gerði ráð fyrir og fjármagnskostnaður er um 203 milljónum króna lægri en áætlun gerði ráð fyrir vegna lægri verðbóta að öðru leyti stenst áætlunin í meginatriðum.

„Það er virkilega jákvætt að sjá þessar niðurstöður og við fögnum þeim að sjálfsögðu. Við höfum unnið markvisst að þessu og þetta er árangur sem allir starfsmenn bæjarins eiga hlut í. Við ætlum að halda áfram á þessari braut og vonandi næst að halda þessari þróun út rekstarárið,“ sagði Haraldur L. Haraldsson um árshlutauppgjörið en það var kynnt fyrir bæjarráði í morgun, fimmtudaginn 7. september.

Tekjur yfir 12 milljörðum

Tekjur námu 12.160 milljónum króna sem er eins og áður sagði um 400 milljónir umfram áætlun. Laun og launatengd gjöld eru stærstu útgjaldaliðir sveitarfélagsins og námu þau 5.768 milljónum króna og nánast á áætlun. Annar kostnaður var 3.798 milljónir sem er 63 milljónum króna undir áætlun. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir var jákvæð sem nam 2.107 milljónum króna. Afskriftir voru 461 milljón króna og fjármagnsliðir 738 milljónir króna. Veltufé frá rekstri nam um 2.014 milljónum króna sem er um 16,6% á móti heildartekjum.

Endanlegt uppgjör á haustmánuðum

Það er rétt að vekja athygli á að vegna samkomulags við Brú lífeyrissjóð munu verða gjaldfærðar á árinu um 600 milljónir króna til viðbótar við áður áætlaða gjaldfærslu ársins. Endanlegt uppgjör mun fara fram á haustmánuðum. Lóðasala ársins hefur hins vegar gengið vel það sem af er ári og það liggur fyrir að í árslok verður færð tekjufærsla vegna seldra lóða sem mun vega upp á móti þessari gjaldfærslu.

Heildareignir 50 milljarðar

Rekstur málaflokka gekk vel og var í takt við áætlanir. Stærsti málaflokkurinn er fræðslu- og uppeldismál en til hans var varið um 5.632 milljónum króna, til félagsþjónustu um 1.551 milljónum króna og til æskulýðs- og íþróttamála um 937 milljónum króna.

Heildareignir námu í júnílok samtals 49.032 milljónum króna og höfðu þær hækkað um 729 milljónir frá árslokum 2016. Heildarskuldir og skuldbindingar námu samtals 38.979 milljónum króna og höfðu lækkað um 178 milljónir frá árslokum.  Ekki er gert ráð fyrir að taka lán á árinu.

Íbúar Hafnarfjarðar voru 29.014 um mitt ár samanborið við 28.779 í ársbyrjun sem er fjölgun um 235 eða 0,8%.

 

Mynd: Olga Björt.