Við hjónin höfum verið þeirra gæfu aðnjótandi að hafa fengið að búa á bæði Spáni og Þýskalandi. Á báðum stöðum er gott að búa en samt leitaði hugurinn alltaf heim í Hafnarfjörð á meðan á útiverunni stóð. Ástæðurnar eru auðvitað fjölmargar en Hafnarfjörður hefur öll einkenni góðs samfélags. Fallegan miðbæ sem iðar af mannlífi, fjölbreytt atvinnulíf og búsetukosti, frábæra skóla og og framúrskarandi útivistarsvæði. Auðvitað er margt sem þarfnast uppfærslu, einkum og sér í lagi umferðarmálin, en heilt yfir eru lífsgæðin í Hafnafirði á heimsmælikvarða. Þetta á auðvitað við um marga aðra staði á Íslandi en betur má ef duga skal. Það er vissulega eitt og annað sem maður saknar frá meginlandi Evrópu.

Eitt af því er einfaldlega að fá aðeins meira fyrir okkar ágætu íslensku krónu. Matarverðið er of hátt, úrvalið oft takmarkað og á sumum sviðum er samkeppnin, eins og á mjólkurmarkaði varla til staðar. Sama gildir um kjör á húsnæðismarkaði, þar verkjar okkur undan vaxtastiginu og eins og svo oft eru það þeir sem eru undir mesta álaginu sem verkjar mest – barnafjölskyldur og annað ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum. Viðreisn vill breyta þessu þannig að lífskjör Hafnfirðinga og annarra landsmanna verði samkeppnishæf við þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við.

Kæru Hafnfirðingar. Við í Viðreisn erum ekki að bjóða upp á neinar töfralausnir fyrir þessar kosningar en við bjóðum upp á lausnir sem virka til langrar framtíðar. í því felast ýmsar nauðsynlegar kerfisbreytingar sem nauðsynlegt er að ráðast í og munu skipta sköpum fyrir íslenskt samfélag á komandi áratugum til að tryggja jafnrétti, velferð og lífsgæði. Það sem meira er þá hefur Viðreisn það sem þarf til að leiða sín stefnumál til lykta. Kjarkinn til breyta, reynsluna til að koma málum áfram og gleðina til að missa ekki móðinn þegar á móti blæs.

 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir