Undanfarin misseri hef ég farið með gönguhópa um hluta gamla bæjarins og hef haft af því mikla ánægju. Ég er líka alveg handviss um að þeir, sem gengið hafa með mér hafa haft bæði gagn og gaman af röltinu og því sem þeir verða áskynja þar. Það er nefnilega frá svo ótal mörgu að segja og svo margt merkilegt að sjá á ekki lengri ferð. Gamli bærinn hefur að geyma mikla og merkilega sögu um uppbyggingu Hafnarfjarðar og við sem búum hér eigum að vera stolt af sögunni og eigum að þekkja sögu þeirra sem byggðu bæinn, sem okkur finnst svo fallegur og köllum bæinn í hrauninu á hátíðlegum stundum. Hóparnir hafa verið af ýmsum toga stundum fólk sem ekkert þekkir til og svo líka hreinræktaðir Gaflarar. Alltaf er jafn skemmtilegt. En ég  nýt þess að fara með fólki sem þekkir svæðið því þá læri ég alltaf eitthvað nýtt, sem bætist í brunninn.

Einu sinni hringdi í mig forsvarsmaður blindra og sjónskertra og spurði hvort ég gæti farið með hans fólk í „sightseeing“ um Hafnarfjörð. Að sjálfsögðu varð ég við því og sá ekki eftir. Þetta reyndist einhver skemmtilegasta ferðin sem ég hef farið. Ekki skemmdi nú fyrir að þegar við gengum Austurgötuna var Sverrir Júlíusson úti í garðinum við fallega húsið sitt og þegar hann heyrði hverjir væru í hópnum bauð hann öllum inn. Það var hreint ævintýri að fylgjast með fólkinu hverjum á sinn hátt dást að öllu stóru og smáu sem þar var að finna.

Hafnarfjörður hefur upp á svo margt að bjóða fyrir augað og saga bæjarins er svo skemmtileg að allir eldri sem yngri eiga að kynna sér. Við eigum að vera jákvæð og þakklát. Nóg er nú til af heimtufrekjunni og neikvæðninni, og við skulum endilega láta aðra um það.