26. maí kjósa bæjarbúar nýja bæjarstjórn. Þetta er lýðræðislegur réttur sem við nýtum okkur til þess að velja okkar fulltrúa í bæjarstjórn til næstu fjögurra ára. Í dag liggur fyrir að 8 framboð bjóða fram lista í Hafnarfirði og því reynir á kjósendur að leggja sig eftir ólíkum sjónarmiðum þeirra sem bjóða fram krafta sína fyrir sveitarfélagið.

Sjálfstæðisflokkurinn er kjölfestan

Sjálfstæðisflokkurinn hefur á því kjörtímabili sem nú er að ljúka starfað í meirihluta með Bjartri framtíð sem biður ekki um endurnýjað umboð hjá kjósendum.  Í upphafi kjörtímabilsins var ákveðið að ráða ópólitískan bæjarstjóra sem framkvæmdastjóra sveitarfélagsins og hefur það fyrirkomulag gefist vel.  Þegar litið er yfir helstu stefnumál sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði fyrir kosningar 2014 kemur í ljós að þau eru flest komin til framkvæmda á líðandi kjörtímabili.  Fjárhagsstaðan hefur batnað stórlega og framkvæmdir hafa verið kostaðar án þess að taka lán.  Við höfum aukið þjónustu á öllum sviðum án þess að hækka gjöld og jafnframt lækkað útsvar og fasteignagjöld.

Umhverfismálin eru mikilvæg

Sem formaður Umhverfis- og framkvæmdaráðs á því kjörtímabili sem nú er að ljúka eru mér umhverfismál hugleikin.  Lífsgæðin sem felast í því að við hafnfirðingar höfum sjálfrennandi ómeðhöndlað drykkjarvatn úr okkar eigin vatnsbóli í ótakmörkuðu magni eru ómetanleg.  Upplandið okkar er líka auðlind sem bæjarbúar nýta sér í vaxandi mæli og því ánægjulegt að á þessu ári mun verða lokið við samfelldan göngu og hjólastíg frá miðbæ að Hvaleyrarvatni og Kaldárseli. Það er enginn staður betri að vera á en á strandstígnum við höfnina í kvöldsólinni þegar hún lýsir upp Snæfellsjökul.  Gönguferð eftir strandstígnum á móti sólarlaginu er mitt uppáhalds og lífsgæðin sem felast í því að anda að sér hreinu sjávarlofti á göngunni eru ómetanleg. Við í Umhverfis- og framkvæmdaráði höfum lagt sérstaka áherslu á umhverfismál og aukið vægi málaflokksins með ráðningu Umhverfisstjóra og ennfremur samþykkt nýja Umhverfis- og auðlindastefnu sem við viljum að verði lifandi stefna sem þverar aðra málaflokka. Markmið umhverfis- og auðlindastefnunnar er að tryggja öllum íbúum Hafnarfjarðar heilnæmt og öruggt umhverfi til lífs, leiks og starfs og skal taka tillit til hennar í allri starfsemi sveitarfélagsins. Hafnarfjarðarbær skal leitast við að vera í fararbroddi í sjálfbærni og umhverfismálum, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og myndunar úrgangs. Umhverfismál þarf að taka föstum tökum og með þessari stefnu leitast Hafnarfjörður við það að setja sér metnaðarfull markmið auk þess að hvetja íbúa til að gera hið sama. Það er verðugt verkefni fyrir okkur öll.

Helga Ingólfsdóttir

Bæjarfulltrúi og fomaður Umhverfis- og framkvæmdaráðs