„Þessi hugmynd vaknaði fyrsta dag sólar í þarsíðustu viku og fannst okkur tilvalið að blása til göngu sem hefði það m.a. að markmiði að týna rusl í nærumhverfi okkar; tölta um fallega Fjörðinn okkar með tilgangi,“ segir Árdís Ármannsdóttir, sem ásamt hópi vinkvenna sem eru í barnsburðarleyfi tóku sig til og tíndu rusl á leið sinni um bæinn. Þær hittast einu sinni í viku.

Árdís segir að hópurinn stefni að því að vera á fleygiferð með vagninn um Fjörðinn þegar sólin fer að sýna sig oftar og lengur. „Hér eftir verður ekki farið út að ganga nema með ruslapoka meðferðis, tækifærið nýtt og rusl týnt. Í fyrstu ruslagöngunni okkar var Norðurbakkinn þræddur og svo tókum við Víðistaðatúnið. Við viljum leggja okkar að mörkum og vera góðar fyrirmyndir fyrir börnin okkar og vonandi hvatning fyrir aðra íbúa að taka sér líka poka í hönd og arka af stað. Það er á ábyrgð okkar allra að hafa fínt í kringum okkur og ef allir íbúar tækju sig til þá yrði Hafnarfjörður ansi fínn á stuttum tíma. Magnið af rusli sem safnast hefur saman undir snjó er hreint ótrúlegt og sorglegt að sjá hversu mikið af ruslinu tengist áramótunum. Það eru flugeldaafgangar út um allt!“

Hafa heimsótt allfesta kaffistaði

Eftir göngu arkar hópurinn gjarnan í IKEA og fær sér hádegisverð og týnir að sjálfsögðu rusl á leiðinni. „Höfum þegar heimsótt allflesta veitingastaði og kaffihús í Hafnarfirði og munum halda því áfram. Það er að mótast ansi góður vinkonuhópur  sem kemur örugglega til með að hittast þegar haldið verður aftur til vinnu eftir fæðingarorlof,“ segir Árdís, en hópurinn hittist oft í heimahúsi eða á skipulögðum hittingum á Bókasafni Hafnarfjarðar þar sem fjölbreytt fræðsla er í boði fyrir foreldra. „Við deilum hugmyndum og ráðum okkar í milli, erum með sameiginlegt snapchat og reynum eftir megni að sjá spaugilegu hliðarnar á svefnleysi,  bleyjuskiptum, samþættingu fjölskyldulífsins og brjóstagjöf. Það er öllum mömmum hollt að eiga aðra mömmu á hliðarlínunni. Nú eru þessar mömmur bara farnar að týna rusl saman og hafa mjög gaman af.“

Litla aðstoðarfólkið ver góðri stund saman á meðan mæðurnar frá sér kaffisopa eftir töltið. 

 

Hópmynd: Olga Björt

Aðrar myndir: Árdís