Fimm manna fjölskylda í Hafnarfirði ákvað einn góðan veðurdag að selja hús sitt við Bröttukinn og nánast alla búslóðina. Ástæðan? Þau vildu komast burt frá íslenskri streituvaldandi þenslu og leita á vit nýrra ævintýra á framandi slóðum. Við kíktum til þeirra daginn sem búslóðin var til sölu á opnu húsi. Þar mættu einnig nágrannar sem reyndu að mótmæla brottfluttningnum.

„Hugmyndin kom upp fyrir ári síðan vegna gífurlegrar þenslu sem er í gangi hér á landi. Ég lenti í vinnuslysi sem reyndist sem betur fer ekki eins alvarlegt og það leit út fyrir að vera. Það hefði allt farið á hliðina hjá okkur. En þetta hristi upp í manni,“ segir fjölskyldufaðirinn Magnús B. Jóhannsson, sjálfstæður iðnaðarmaður og fyrirtækiseigandi. Móðirin er Rakel Dögg Sigurgeirsdóttir og börnin Aron Elí (17 ára), Marta Lukka (11 ára) og Emma Elísa (5 ára).

Verðmerkingar voru til fyrirmyndar.

Það þarf hugrekki til að selja leikföngin sín.

Í norskum kofa yfir jólin

Magnús segist yfirleitt vera sá sem er á bremsunni í hjónabandinu en í þetta sinn spurði hann fjölskylduna: „Eigum við ekki bara að selja helvítis kofann og fara í heimsreisu?“ Við tók ferli þar sem þau sættu sig við að setja húsið á sölu. „Það var mikill áhugi en ég vildi sanngjarnt verð til þess að fá rétta fólkið til að kaupa, sem passar í húsið eins og við gerðum á sínum tíma fyrir næstum fjórum árum síðan. Við vorum ekki að fara að kaupa aðra eign á móti og við munum hvergi eiga heima þegar við komum til baka,“ bætir Magnús við, hvergi banginn. Nágrannar hafi mótmælt en fjölskyldan hefur boðið þá velkomna til sín hvar sem þau koma til með að vera í heiminum.

„Við ætlum að reyna að staldra við sem lengst á hverjum stað og byrjum á skíðum í Noregi um jólin, í jólalegum kofa í norskri fjallahlíð. Svo er ferðinni heitið til Bandaríkjanna og Suður-Ameríku eftir það.

Ýmislegt var til sölu, stórt og smátt.

Mikið af fatnaði fjölskyldunnar var til sölu.

Losuðu sig við allar skuldir

Sonurinn á heimilinu fer í smá frí frá námi í Flensborg og eldri dóttirin verður í heimakennslu í samstarfi við skólann. „Við viljum sýna börnunum að samfélagið á Íslandi endurspeglar ekki heiminn. Við tókum líka þá ákvörðun að byrja snemma að tala um þennan flutning upphátt til að mynda þrýstinginn með að láta verða af þessu. Það eru margir að fylgjast með,“ segir Magnús.

Fjölskyldan lét vita á Facebook að innbúið væri til sölu og húsið fylltist af fólki. Kaffivélin var dýrasti hluturinn en einnig málverk og gamall spegill. „Við vorum í raun að selja veraldlegt líf okkar og fundum fyrir ótrúlegum létti. Okkur þótti líka vænt um að fólk sem við þekkjum tók eða keypti einn og einn hlut. Það verður því með veraldlegan hluta af okkur á heimilum sínum. Þetta er svo frelsandi – að vera á leið í langt frí. Við losum okkur við allar skuldir. Engar afborganir, nema líftryggingar,“ segir Magnús að endingu. Fjarðarpósturinn mun áfram fylgjast fjölskyldunni, en þau munu blogga um ferðalagið sitt.

Myndir/OBÞ.