Öldruðum einstaklingum fer stöðugt fjölgandi og býr stór hluti þeirra við góða heilsu og þarf litla eða enga aðstoð frá samfélaginu. Engu að síður eru þeir í hættu á að fá geðraskanir og taugasjúkdóma og í heiminum er talið að um 30% fólks glími við geðheilbrigðisvanda. Einnig er talið að 20% yfir sextugt séu í slíkum sporum. Sandra Jónsdóttir hefur starfað við aðhlynningu á hjúkrunarheimili fyrir aldraða undanfarin þrjú ár og stundar samhliða vinnunni nám í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Í lokaritgerð Söndru í BA náminu í vor kannaði hún hvaða úrræði er í boði á Íslandi fyrir aldraða einstaklinga með geðheilbrigðisvanda.

Algengustu geðsjúkdómar meðal aldraðra eru þunglyndi, heilabilun, kvíðaraskanir og vímuefnavandi. Fordómar í garð geðsjúkdóma geta hindrað það að aldraðir einstaklingar leiti sér aðstoðar (WHO, 2016). Fram kemur í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 að markmið laganna sé að tryggja landsmönnum bestu heilbrigðisþjónustu sem hægt er að veita hverju sinni, til verndar félagslegu, líkamlegu og andlegu heilbrigði.

Félagsráðgjafar eru málsvarar

„Áhugi á þessi sviði vaknaði í vinnunni og sjá hversu mörg úrræði vantar í raun fyrir þennan aldurshóp. Samkvæmt WHO mun hann tvöfaldast á árunum 2015-2050. Á öldrunarstofnunum er því miður skortur á þjónustu fyrir þau sem líður illa andlega. Aldraðir hafa samt rétt á því samkvæmt lögum og þekkja langflestir ekki rétt sinn og nýta sér hann því ekki,“ segir Sandra og bætir við að félagsráðgjafar séu gjarnan málsvarar sem bendi á leiðir.

„Það eru bara tvö úrræði fyrir aldraða með geðheilbrigðisvanda á Íslandi: Hjúkrunarheimilið Fellsendi og Hjúkrunarheimilið Mörk, sem er sér eining fyrir tíu einstaklinga. Einnig eru tvær sérhæfðar geðdeildir á landinu á geðsviði Landspítala og geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri, fyrir 18 ára og eldri. Það þyrftu að vera miklu fleiri.“

Fordómar hamla bata

Félagsleg einangrun hefur áhrif á líðan og er algengt vandamál. Aðspurð vill Sandra veita þau ráð fyrir þá sem finna fyrir andlegri vanlíðan að leita til næstu félagsþjónustu og fá viðtal við félagsráðgjafa sem getur kannað hvaða úrræði eru í boði og leitt áfram eða leitað til heimilislæknis. „Fólk er kannski búið að humma fram af sér andlega vanlíðan lengi og það hefur á endanum áhrif á líkamlega líðan. Eigin fordómar og annarra í garð geðheilbrigðis geta oft hamlað betri líðan og lífsgæði á þessu mikilvæga aldursskeiði.“

Sandra segir að það þurfi að fræða aldurshóp 60 ára og eldri og hvetja til að leita leiða að vellíðan því ástæðan fyrir vanlíðan geti verið af ýmsum toga, arfgeng eða ekki. „Við starfsfólk hjúkrunarheimila reynum alltaf okkar besta í aðstæðum til að láta skjólstæðingum okkar líða sem best. Þessi málaflokkur er brýnn og hefur með mannréttindi að gera. Þetta fólk á miklu betra skilið og við sem þjóð getum miklu betur.“

 

 

Mynd af Söndru: Olga Björt

Aðrar myndir: helpguide.org og ucsf.edu.