Rokktríóið 200.000 naglbítar verður 25 ára á næsta ári.  Ný plata er í bígerð sem mun koma út í ársbyrjun og eitt lag af plötunni, Allt í heimi hér, fór beint inn á topp 10 á Vinsældarlista Rásar 2. Bandið mun stíga á svið í Bæjarbíói næstkomandi föstudag og Fjarðarpósturinn heyrði örstutt í söngvaranum Vilhelmi Antoni Jónssyni, Villa, en hann og Kári bróðir hans bjuggu í Hafnarfirði fyrstu æviárin. 

„Ég var í Kató og við fjölskyldan bjuggum við Lækjarkinn. Það er gaman að segja frá því. Mamma og pabbi kenndu líka bæði í Öldutúnsskóla ,“ segir Villi sem hlakkar til að spila fyrir bæjarbúa nýtt og áður óflutt efni í bland við sígilda slagara á tónleikunum á föstudag. Hljómsveitin hefur haft hægt um sig síðustu misseri en er komin í hvílíkan gír. Hún hefur áður gefið út þrjár breiðskífur og eina smáskífu, síðast fyrir 15 árum. „Nýju lögin okkar, Allt í heimi hér og Leiðin heim eru í mikilli spilun og platan verður barmafull af hágæða melódísku rokki. Við lofum eðal stemningu í okkar anda. Þetta verður veisla!“ segir Villi að lokum.

Enn eru nokkrir miðar eftir og hægt að nálgast þá hér.

Hér er svo Facebook síða tríósins. 

Á mynd frá vinstri: Benedikt Brynleifsson, Kári Jónsson og Vilhelm Anton Jónsson.