Fyrir Alþingi liggur nú þingsályktunartillaga um bætt kjör kvennastétta.  Flutningsmenn hennar eru nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata.

Í tillögunni felst að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leiða viðræður við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga um sérstakt átak, þjóðarsátt um bætt launakjör kvennastétta.  Átakið fæli í sér gerð sérstaks kjarasamnings um bætt launakjör fjölmennra kvennastétta, svo sem kennara og heilbrigðisstarfsfólks.

Um er að ræða gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir stóra hópa sem vinna á vegum sveitarfélaga, einkum hópa sem annast kennslu á leik- og grunnskólastigi sem og starfsfólk í hvers konar umönnunarstörfum.

Þessir hópar hafa í gegnum tíðina mátt þola mismunun á grunni kynferðis sem birst hefur í launmun upp á allt að 13% (samkvæmt rannsókn Hagstofu Íslands 2015).  Það á að vera kappsmál fyrir sveitarstjórnarfólk að beita sér fyrir því að launamuni kynjanna sé útrýmt.

Afleiðingar þessara kjara eru kunnar og birtast m.a. í því að erfiðlega hefur gengið að ráða starfsfólk til starfa í leik- og grunnskólum sem reknir eru af sveitarfélögunum.  Einnig hefur af þessum sökum gengið erfiðlega að ráða fólk til starfa í margskonar umönnunarstörf sem leika lykilhlutverk í innviðum nærsamfélagsins.

Það er mikilvægt að sveitarstjórnarfulltrúar taki höndum saman og axli raunverulega ábyrgð á þessum málum.  Og til þess þarf pólitískan vilja.

Það er á ábyrgð þeirra sem veljast til forystu í sveitarfélögum landsins að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að eyða þessum launamun svo fljótt sem auðið er samfélaginu öllu til heilla!

Friðþjófur Helgi Karlsson

Höfundur er varabæjarfulltrúi og skipar 2. sætið á lista Samfylkingarinnar fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor.