Vinnuskóli Hafnarfjarðar tók til starfa í byrjun júní og eru rúmlega 700 hafnfirsk ungmenni 14 ára og eldri nú við fjölbreytt störf víða um bæinn. Störf þeirra eru afar mikilvæg fyrir sveitarfélagið og ákváðu bæjarstjóri og stjórnendur vinnuskóla að blása til veislu á Thorsplani fyrir hópinn og þakka þannig sérstaklega fyrir vel unnin störf það sem af er sumri.  

 Vinnuskóli Hafnarfjarðar sinnir fyrst og fremst umhverfismálum og á þannig stóran þátt í því að hreinsa bæinn og hirða gróður, götur og göngustíga yfir sumartímann. Starfsfólk vinnuskólans sinna mikilvægu hlutverki í því að skapa ásýnd bæjarins, að hans sé þrifalegur og snyrtilegur. Stór hópur starfar einnig á leikjanámskeiðum bæjarins og íþróttafélaga þar sem þau læra að starfa með hóp yngri barna, veita þeim tilsögn og ráðleggingar. Slík störf eru gefandi og mótandi til framtíðar. Þau ungmenni sem starfa við hreinsun í sumar starfa í hópum. Hver hópur sér um sitt hverfi og vinnur sig þannig jafn og þétt í gegnum fyrirliggjandi verkefni á hverjum stað. Mikil áhersla er m.a. lögð á miðbæ Hafnarfjarðar með það fyrir augum að hafa hann snyrtilegan og fínan fyrir alla þá sem sækja hann heim. Búið er að skreyta bæinn með blómum og stéttir og stíga sópaðir reglulega. Starfsmenn vinnuskóla sinna mikilvægum verkefnum fram í ágúst.

Mynd: Hafnarfjarðarbær.