Þolaksturskeppni KK fór fyrir ekki all svo löngu fram á hringakstursbraut Kvartmíluklúbbsins í Kapelluhrauni í Hafnarfirði. Níu bílar voru á ráspól og kepptu þeir um hver gæti lokið flestum hringjum á þeim tveim klukkustundum sem þolaksturinn stóð. Símon Wiium sigraði keppnina á Ford Focus RS eftir að hafa lokið 97 hringjum.

Brautin er rétt rúmlega 1,6 km löng og ók Símon því slétta 160 kílómetra á þessum tveimur klukkustundum. Næstur honum kom Ingólfur Kr. Guðmundsson á VW Golf sem lauk 96 hringjum og í þriðja sæti var Tómas H. Jóhannesson á Opel Speedster með 95 hringi. Veðrið reyndist keppendum og áhorfendum hin mesta skemmtun þar sem skiptust á skin og skúrir. Fyrir vikið voru aðstæður í brautinni mjög krefjandi og þurftu keppendur að taka á öllu sínu til að aka af öryggi við svo breytilegar aðstæður.

Verður endurtekið að ári

Hringakstursbraut Kvartmíluklúbbsins er sérbyggð kappakstursbraut sem klúbburinn hefur byggt upp í góðri samvinnu við fjölmörg fyrirtæki og opinbera aðila sem hafa séð kosti þess að bjóða upp á akstur í öruggu umhverfi. Þar sem þátttaka í þessum fyrsta þolakstri var mjög góð og bæði keppendur og áhorfendur höfðu mikla skemmtun og ánægju af, er ljóst að keppnin verður endurtekin að ári. Hér er því komin ánægjuleg viðbót við íslenskt mótorsport sem á framtíðina fyrir sér.

 

Meðfylgjandi myndir (C) B&B Kristinsson – leyfðar til birtingar með ofangreindri frétt.