Glaðheimar er glænýtt hverfi, eða eiginlega þorp, sem rís mitt í rótgrónu umhverfi í Kópavogi. Theódóra Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs í Kópavogi, segir að hverfið muni vera algjörlega ný ásýnd fyrir Hafnfirðinga sem aka Reykjanesbrautina suður til Hafnarfjarðar.

Theódóra segir að um sé að ræða fyrsta áfanga af þremur. Alls verði um 500 íbúðir í Glaðheimum í heild en þessi fyrsti áfangi innihaldi rúmlega 300 íbúðir. „Annar áfangi er í undirbúningi og verður blönduð byggð verslunar og þjónustu og íbúða. Í Glaðheimum verður allt til staðar, það er miðsvæðis og öll þjónusta fyrir hendi.“ Þá verði lögð rík áhersla á hönnun og útlit í uppbyggingu hverfisins. „Útkoman verður í raun glæsilegt þorp í hjarta höfuðborgarsvæðisins.“

Vel tengt stofnæðum höfuðborgarsvæðisins

Þetta nýja hverfi rís við hlið gróinna hverfa í Kópavogi, við Lindahverfi, austan Reykjanesbrautar og Smárahverfis. Það hefur því þá sérstöðu á meðal nýbyggingahverfa að öll þjónusta er til staðar fyrir framtíðaríbúa hverfisins, s.s. skólar, leikskólar, íþróttaaðstaða, sundlaug, verslanir og verslunarmiðstöðin Smáralind, eru í næsta nágrenni við hverfið. Þá er svæðið einnig vel tengt stofnæðum höfuðborgarsvæðisins.

Væntanlegt útsýni úr einni af íbúðum í Glaðheimahverfinu. 

Allar upplýsingar á einum stað

„Það er líka skemmtilegt að segja frá því að byggingafyrirtækin sem þarna eru í framkvæmdum tóku sig saman í að opna heimasíðu fyrir þorpið þar sem hægt er að fara í 360 gráða útsýnisferð um svæðið allt. Markaðsstofa Kópavogs leiddi þessa vinnu í samstarfi við fyrirtækin og Kópavogsbæ. Markmiðið er að auka þjónustu við þá sem hug hafa á að finna sér húsnæði í Kópavogi. Á síðunni eru allar upplýsingar á einum stað, svo sem eins og hvaða skólar, íþróttafélög og þjónusta er á svæðinu. Hvernig samgöngur eru og hversu langt er í allt og ýmislegt annað,“ segir Theódóra.

Vefsíða Glaðheima.