Að baki er stórskemmtileg helgi hjá mér og krökkunum mínum, kjaftfull af ævintýrum, en samt fórum við nánast aldrei út fyrir 220. Það er ekkert langt síðan menningarlíf Gaflarans gekk úr á að drekka sig fullan á Fjörukránni eða Hansen og drekka svo þynnkukaffi á Súfistanum.

Fjörukráin gekk fyrst úr skaftinu og sneri sér að hótelrekstri, Hansen dankaðist hægar niður, en Súfistinn stendur enn vaktina sem nestor hafnfirskrar miðbæjarmenningar. Fylliríið fór upp á hraun og í staðinn fengum við fulla skál af gotteríi í miðbæinn.

Það eru komin tvö mjög góð kaffihús á Norðurbakkann annað intróvert en hitt extrovert og veit út að höfn. Í gamla slippinn eru komnir tveir veitingastaðir, annar sælkera kaffihús og hinn háklassa matsölustaður. Þetta er nýtt og þetta stenst samanburð við hvað sem er í 101 og erlent kokkabixerí. Perlan er svo bíóið. Bæjarbíó er komið í hendur aðlila sem reka það af stakri fagmennsku og prýði. Ég og ormarnir sóttum bíóið heim á hverju kvöldi þessarar helgar og munum halda því áfram meðan heilsa leyfir

Gerið nú eitt fyrir mig.

Mætið á þessa staði, leyfið kokkunum að elda ofan í ykkur, leyfið kaffimeisturunum að brugga ofan í ykkur cappuchino og latte og koffínlaust sojafrappe eða hvað þetta heitir nú allt. Leyfið öllum þessum frábæru skemmtikröftum að skemmta ykkur í bíóinu.

Það er ekkert sjálfgefið að hafa alla þessa staði í litlu sjávarþorpi, þannig að eigum við ekki að reyna að halda fast í þá.

Ást og friður

Tommi