Teikningar eftir þrjár hafnfirskar stúlkur voru valdar í úrslit í samkeppni um drauma-mjúkdýr hjá IKEA og fara teikningarnar í alþjóðlega keppni um mjúkdýr sem verða framleidd og seld í verslunum IKEA á heimsvísu. Þær Embla Katrín Oddsteinsdóttir, Karen Ólafía Guðjónsdóttir og Sonia Laura Krasko voru glæsilegir fulltrúar Hafnfirðinga. Sonia er með dálitla reynslu í þessum „bransa“, því hún á nokkur dýr sem hafa verið saumuð eftir teikningum hennar.

IKEA hefur undanfarin ár staðið fyrir teiknisamkeppni meðal barna 12 ára og yngri. Börnin geta sent inn myndir af drauma-mjúkdýrunum sínum og teikningarnar eiga möguleika á að enda í lokakeppninni og verða að raunveulegum mjúkdýrum í SAGOSKATT línunni. Skilafrestur rann út 1. desember sl. og voru 20 teikningar eftir íslenska krakka valdar í úrslit af 200 innsendum. Allar þjóðir sem hafa IKEA verslun mega senda 20 teikningar í lokakeppnina og á næstu vikum verður tilkynnt hvaða 10 teikningar á heimsvísu munu breytast í alvöru IKEA mjúkdýr.

Létu sauma eftir teikningum

Systurnar Sonia og Luiza með mjúkdýrin sín. Mynd aðsend. 

Sonia Laura Krasko býr á völlunum ásamt móður sinni Dominiku og yngri systur Luizu, en Dominika starfar sem deildarstjóri á leikskólanum Bjarkalundi. Þær mæðgur fengu pólska listakonu og saumakonu, Maju Mencel, til að sauma fyrir sig mjúkdýr eftir teikningum systranna. Ekki nóg með það, þá eru systurnar duglegar að klæða mjúkdýrin í föt af sjálfum sér frá því þær voru kornabörn. Það er nú ekki amalegt í íslenska vetrarkuldanum. Systurar voru svo yndislegar að deila með okkur meðfylgjandi myndum, með leyfir móðurinnar að sjálfsögðu.

Nokkur mjúkdýranna sem saumuð hafa verið eftir teikningum systranna, í fötum af þeim síðan þær voru kornabörn. Mynd: aðsend. 

Luiza með eitt dýranna. 

Fjarðarpósturinn mun fylgjast spenntur með gengi mjúkdýra Soniu Lauru, Emblu Katrínar og Karenar Ólafíu í stóru keppninni og flytja fréttir af því þegar úrslit koma í ljós.

 

Hópmynd: Hafnfirðingarnir eru Karen Ólafía (2. f.h. í aftari röð) Embla Katrín (4. f.h. í aftari röð) og Sonia (lengst t.h. í fremri röð).