Við sendum fólk inn á löggjafarsamkomuna til að setja sig inn í alls konar mál fyrir okkar hönd, finna lausnir sem séu í anda þeirra lífsviðhorfa sem við aðhyllumst, hvort sem það er gróðahyggja og markaðstrú eða félagshyggja og almannahagur. Þetta er fagurt fyrirkomulag og það má aldrei varpa því fyrir róða. En við eigum líka að veita þessum kjörnu fulltrúum stöðugt aðhald, fylgjast vel með störfum þeirra.

Íslendingar eru jafnaðarmenn upp til hópa, vilja til dæmis að hér sé öflug opinber þjónusta, gott velferðarkerfi sem virkar – skólakerfi, samgöngukerfi, veitukerfi, heilbrigðiskerfi: þetta sem stundum er kennt við innviði, en er kannski alveg eins sjálf umgjörðin sem samfélagið býr okkur.

Hvað viljum við?

Við viljum samhjálp. Við viljum að umönnun sé metin að verðleikum, en ekki sett lög á slíkar stéttir þegar þær reyna að bæta kjör sín, eins og gerðist með hjúkrunarfræðinga í tíð næstsíðustu ríkisstjórnar með þeim afleiðingum að nú vantar 500 hjúkrunarfræðinga til starfa.

Við viljum að unga fólkið geti komið sér þaki yfir höfuðið án þess að það sé meiri háttar manndómsraun, þegar þau ættu frekar að vera einbeita sér að uppeldi barna og ræktun eigin hæfileika.

Íslendingar eru jafnaðarmenn

Íslendingar eru sem sé jafnaðarmenn upp til hópa og samt horfum við upp á æ meiri einkavæðingu og viðleitni til að láta hin opinberu kerfi grotna niður svo að einkaaðilar geti tekið við hlutverki þeirra. Hvernig stendur á því að jafnaðarstefnan má sín svo lítils í samfélaginu? Þó að kjósendum bjóðist ótal jafnaðarmannaflokkar fyrir kosningar fækkar þeim snarlega eftir kosningar. Stjórnmál snúast um þetta: grundvallarviðhorfin en líka tilfinningar og þá stemmningu sem stjórnvöld hverju sinni búa til kringum störf sín. Jafnaðarmenn ætla að láta hjartað ráða för.

 

Guðmundur Andri Thorsson

oddviti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi