Lífsgæðasetur, þjónustuhús fjölskylduþjónustu og héraðsskjalasafn – eru á meðal tillagna þjónustuhóps um nýtingu á St. Jósefsspítala. Leitast var við að fjölnota og sveigjanlegur rekstur gæti farið fram í húsinu. Þetta kemur fram í frétt á RÚV
Bæjarráð Hafnarfjarðar skipaði starfshópinn í sumar um nýtingu spítalans. Hópurinn hafði víðtækt samstarf við bæjarbúa og hagsmunaaðila og út frá fyrirliggjandi gögnum, tillögum og samtölum voru lagðar fram þrjár tillögur um framtíð St. Jósefsspítala.

Fyrsta tillaga hópsins gerir ráð fyrir að efla Hafnarfjörð sem heilsubæ og halda í heiðri því fræðslustarfi sem systurnar á spítalanum unnu ötullega að. Er því til svokallað lífsgæðasetur, að í húsinu verði samfélag sem býður upp á forvarnir, heilsuvernd, snemmtæka íhlutun, fræðslu og skapandi setur.

Starfshópurinn segir að fjölskylduþjónusta Hafnarfjarðar hafi sent inn nokkrar tillögur um nýtingu á spítalanum. Skortur væri á húsnæði fyrir ungt fólk með fötlun, einkum framtíðarhúsnæði og því væri lagt til að nýta húsið sem þjónustuhús fjölskylduþjónustunnar.

Að lokum segir í frétt RÚV að Hafnfirðingar hafi lengi kallað eftir héraðsskjalasafni og sé húsnæðið prýðilegt fyrir slíkt safn. Sú starfsemi gæti farið fram með annarri starfsemi. Stungið er upp á dagvistun samhliða skjalasafninu og hópurinn leggur til að félagasamtök líkt og Alzheimer eða Parkinson samtökin fái einnig afnot af húsinu.

Eins og Fjarðarpósturinn hefur áður greint frá komuum 700 manns að skoða húsnæðið í september og þá voru ýmsar skoðanir voru meðal gesta um hvers konar rekstur skyldi þarna verða í framtíðinni. Flestir nefndu hjúkrunarheimili, staður fyrir hvíldarinnlagnir, heilsugæslu eða einhvers konar aðbúnað þar sem hægt yrði að hlúa að elstu borgurunum. Þó komu einnig hugmyndir um tónleikahald eða viðburði í kapellunni en enginn vildi fá þarna hótelrekstur og ein tók sterkt til orða: „Ekki hótel, takk fyrir!“

Myndir: Olga Björt.