Eftir að fyrirtækið Berserkir axarkast var stofnað í vor er í fyrsta sinn á Íslandi hægt að keppa innanhúss í axarkasti. Einnig er vinsælt fyrir pör og hópa að hittast þar og fá góða og óvenjulega útrás. Við kíktum í heimsókn að Hjallahrauni 9 og ræddum við eigendurna, Elvar Ólafsson og Helgu Kolbrúnu Magnúsdóttur og systur hennar, Rannveigu Magnúsdóttur, sem er einnig kærasta Elvars. 

Axarköst hafa til dæmis góð áhrif á sambandserjur. Eigendurnir Elvar og Helga Kobrún.

Fyrir ári síðan fór Elvar til Kanada með æskuvinum sínum þar sem þeir prófuðu axarkast. Hann kom heim með stjörnur í augunum og staðráðinn í stofna svona félag á Íslandi. Helga Kolbún er margfaldur Íslandsmeistari í bogfimi og hafði einnig kynnst axarkasti í keppnisferð um Nýja-Sjáland. Síðastliðið vor stofnuðu þau fyrirtækið Berserki axarkast, leigðu húsnæði og byggðu upp brautirnar. „Allt að 24 geta keppt á sama tíma, 12 á hverri braut. Við byrjum á að kenna fólki að kasta og svo er búin til létt keppni,“ segir Rannveig.

Bannað að kasta í mynd af einhverjum

Spurð um hvað fólk fái mest út úr þessari íþrótt segir Helga Kolbrún það vera mikla útrás. „Það er eitthvað við þetta, kannski innra víkingaeðli að brjótast fram. Það er líka góð útrás að kasta svona tiltölulega þungum hlut og líða eins og að þú sért að gera eitthvað af þér, sem þú samt mátt gera.“ Rannveig bætir við: „Nokkrir sem hafa komið hingað eru pínu hræddir við axirnar og við mælum með að fólk bara finni sinn innri pirring eða reiði og noti það í axarköstin. Það verður einhver losun.“ Þau taka fram að bannað er að setja mynd af einhverjum til að kasta í. Einn hópur ætlaði t.d. að festa upp mynd af fyrrverandi kærasta einhverrar sem verið var að gæsa. „Það má ímynda sér einhvern sem kastað er í, það kemur okkur ekki við. En við brjótum ekki alþjóðareglur með að leyfa mynd.“

Vinsælt er að byrja steggjanir og gæsanir þarna.

Passar vel í víkingabæinn

Berserkir eru að undirbúa keppnismót í axarkasti og í því tilefni var efnt til söfnunar á Karolina Fund. „Okkur langar að halda formlegar keppnir innanhúss og finnum fyrir áhuga hjá fólki sem vill byrja að æfa og keppa og við stefnum á að senda fulltrúa frá Íslandi í alþjóðlega keppni,” segir Elvar. Helga Kolbrún bætir við: „Þessi íþrótt passar vel inn í víkingabæinn Hafnarfjörð og þetta er nýtt og spennandi. Fólk sem hefur prófað hefur komið aftur. Flestir segja að þetta sé bæði miklu skemmtilegra og miklu erfiðara en þeir bjuggust við. Axarkast og áfengi eiga þó ekki samleið. Því er best að byrja slíka hópeflisdaga hér. Þetta er jafnvel tilvalið sem fyrsta Tinder-deit, miklu skemmtilegra en að fara í bíó. Hægt að meta keppnisskapið og innra eðlið og svona,“ segir hún og þau hlæja öll.

Aðstaðan lýtur alþjóðlegum öryggisreglum.

Á laugardögum og sunnudögum er opinn tími milli kl 14 og 17 þar sem allir geta komið og kastað öxum. Almennt geta hópar bókað þegar þeim hentar best og er þá um að gera að hafa samband í gegnum vefsíðuna www.berserkir-axarkast.is eða Facebook síðu félagsins. Einnig er hægt að styrkja á Karolina fund og fá í staðinn axarkast og/eða flottan bol merktan félaginu.

Myndir/OBÞ og hópmyndir í einkaeigu.