„Byltingin er hafin!“ sagði Kjartan Theódórsson, Kjarri tjaldbúi, eftir að honum var boðið í dag á hádegisverðarfund með Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata. Fjarðarpósturinn heyrði í Kjartani stuttu eftir fundinn og þá lá ansi vel á honum og hann sagði fundinn hafa verið afar árangursríkan. 

Kjartan, sem hefur búið ásamt unnustu sinni í tjaldi á Víðistaðatúni síðan í júlí, hefur vakið athygli fyrir umbúðalaus „snöpp“ sín til að vekja athygli á aðstæðum húsnæðislausra Íslendinga. Fylgendur hans á Snapchat skipta núna þúsundum og hann finnur fyrir miklum meðbyr en var farið að lengja eftir viðbrögðum frá stjórnmálaflokkum. „Svo hafði þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, samband við mig í gegnum Facebook spjallið í gærkvöldi og bauð mér á hádegisverðarfund í dag. Ég þáði það að sjálfsögðu með þökkum og mætti tandurhreinn í mínu fínasta pússi,“ segir Kjartan.

Stutt í næstu skref

Fundurinn stóð yfir í um klukkutíma í matsal Alþingis og Kjartan segir að Björn Leví hafi greinilega verið búinn að kynna sér baráttumál hans vel og hafi verið reiðubúinn að stíga stór skref á næstunni. „Ég kaus Pírata í síðustu Alþingiskosningum og Björn Leví sagði að nú væri kominn tími til að launa mér það. Hann ætlar meira að segja að heimsækja mig í tjaldið á morgun og fylgja mér næstu daga,“ segir Kjartan sem segist troðfullur af hugmyndum eftir fínar ábendingar í gegnum Snapchat. Hann vildi ekki fara nákvæmlega út í þessi næstu skref, en að þau snúist um nokkurs konar neyðarbyggð fyrir heimilislausa. „Ég hef fulla trú á því að næstu skref verða tekin af hörku þegar þingið kemur saman eftir sumarfrí. Það er hópur fólks á leiðinni á götuna á næstu vikum og mánuðum og við erum að tala um aðgerðir til að finna húsnæði handa þessu fólki. Við erum að tala um fjölskyldur.“

 

Mynd af Kjartani: Olga Björt

Mynd af Birni Leví: Alþingi.is