Ingvar Jónsson, sem margir landsmenn kannast m.a. við sem söngvara í hljómsveitinni Pöpunum breytti um lífsviðhorf fyrir 10 árum þegar hann skellti sér í háskólanám. Hann gaf nýverið út bókina Sigraðu sjálfan þig, sem er þriggja vikna áskorun fyrir venjulegt fólk sem vill meira. Ingvar er einn eigenda fyrirtækisins Profectus við Strandgötu hér í bæ.

Lengi vel var Ingvar ekki á góðum stað í lífinu og það tók stakkaskiptum breyttist þegar hann dreif sig í nám 37 ára. Hann er vottaður ACC markþjálfi og alþjóða markaðsfræðingur með MBA frá CBS í Kaupmannahöfn. Ingvar hefur starfað við kennslu og fyrirlestrahald síðustu 15 ár og við stjórnunarstörf síðan 1999, nú síðast sem fram- kvæmdastjóri NTV. Auk þess hefur hann NLP vottun og er starfandi stjórnendamarkþjálfi.

„Ég horfi í dag á líf mitt sem tvo hálfleiki. Í fyrri hálfleik var ég poppari og vitleysingur, núna er ég vitrari og met lífið á annan hátt. Síðan þá hef ég klárað tvær háskólagráður, eina meistaragráðu, skrifað þrjár bækur og sú fjórða er á leiðinni,“ segir Ingvar sem einnig heldur einstaklingsnámskeið sem hann byggir á bókinni sinni. „Þessi námskeið seljast alltaf upp. Bókin er skrifuð fyrir einstaklinga og er fyrsta bókin sem ég skrifa fyrir venjulegt fólk. Ég hef skrifað nokkrar bækur áður, oftast á ensku og þær hafa verið gefnar út erlendis.“

Að vaxa út í verkefnin

Bækur Ingvars fjalla meira og minna um það hvernig hægt er að verða betri manneskja og í kjölfarið betri leiðtogi. „Ég skrifa um mjúku málin, töffarinn er dauður! Ég fæ forstjóra, framkvæmdastjóra, bankastjóra og bara nefndu það sem ætla að tala um hörð mál eins og fjármál og viðskipti en svo breytist umræðan í það hvernig þeir geta vaxið út í þau verkefni sem þeir fást við. Þetta byrjar allt og endar innra með okkur, sama hvert við förum. Þetta snýst á endanum alltaf um að standa með sér, vera trúr sér og þykja vænt um sig,“ segir Ingvar.

Í bókinni Sigraðu sjálfan þig talar Ingvar um undirbúning með annarri nálgun en fólk er vant. „Og ég tala af reynslu. Hér í sófanum á skrifstofunni minni hafa setið mjög margir sem hafa farið í gegnum ákveðið ferli með sjálfa sig, farið í sjálfsskoðun og eru með markmið eftir það. Þau sem ná árangri eru þau sem fara rétta leið að sjálfum sér. Það skiptir höfuðmáli að ná sátt og sjá hvernig sjálfsvirðing og sjálfstraust hanga saman. Sjálfstraust er bara birtingarmynd sjálfsvirðingar. Það þarf að hætta að svíkja litlu loforðin sem við gefum sjálfum okkur. Slíkt grefur undan sjálfstrausti, “ segir Ingvar með áherslu á að hann segi aldrei fólki hvað það á að gera, því það finni sjálft út úr því.

Vanahegðun tekur sjaldnast 21 dag

Í sjálfshjálparbókum og víðar er talað um að það þurfi 21 dag til að breyta vanahegðun. Ingvar segir það langt frá því að vera algilt. „Ef það er engin tilfinningaleg mótstaða, þá gengur það. Þetta getur tekið lengri tíma ef fólk er að þráttast við og ekki sátt við breytingarnar sem verið er að innleiða. T.d. með því að fara í ræktina og vegna þess að það þarf að gera það. Fólki finnst það jafnvel vont, erfitt og leiðinlegt. Svo koma harpsperrur ofan á allt saman og meiri sársauki. Og samanburður við aðra flækir málin enn meira,“ segir Ingvar og bæti við það geti ekki allir tengt við það að fara með það jafnvægi sem þarf af stað.

En hvað gerist þegar fólk setur sér markmið eins og að strengja áramótaheit og gefst fljótt upp? Ingvar segir að þá sé um takmarkaðan undirbúning að ræða og að fólk fari af stað með hornin á undan sér. „Og fólk hefur sjálft sig á hornum sér, fer með sársaukann sem drifkraft í staðinn fyrir spennandi sýn og von um betri tíð. Það er óánægt fyrir og verður samviskubitið af sjálfu sér. Það sem veganesti er dæmt til að mistakast.“

Sársauki sjö sinnum sterkari en vellíðan

Nálgunin sem Ingvar notar í bókinni gengur út á að byrja á hinum endanum. „Ég skoða hvað við viljum í raun, af hverju við viljum það og hvað verður betra þegar markmiðinu er náð. Búum til spennandi sýn sem okkur langar að upplifa og náum jafnvægi á milli heila og hjarta. Byrjum á að horfast í augu við veruleikann eins og hann er og drögum ekkert undan. Sýnin verður tilfinningalegt vogarafl og við finnum innra með okkur hversu mikið okkur langar að þetta verði að veruleika. Þegar við erum komin með þessa góðu tilfinningu þá varir hún miklu lengur. Sársauki er sjö sinnum sterkari tilfinning en vellíðan og þegar hann sársaukinn er hreyfiaflið þá er uppgjöfin ekki langt undan vegna þess að þegar þetta hættir að vera vont þá missum við hvatann. Og þá er stutt í sama farið,“ segir Ingvar.

„To do“-listar varasamir

Spurður um svokallaða aðgerðalista (to do) sem margir notast við segir Ingvar að þeir geti verið varasamir því fólk hrúgi gjarnan inn á þá miklu meira en það getur komist yfir og rakki sig svo niður fyrir það sem það komi ekki í verk. „Það vantar oft að máta markmið við grundvallaratriði sem þurfa að vera í lagi. Að setja sér markmið er listform. Það þarf að standast ákveðna skoðun. Þegar leið hefur verið valin og markmiðin orðin hvetjandi, fylla þau okkur eldmóði, eru raunhæf, niðurbrotin, aðgerðabundin og forgangsröðuð. Annars verða bara til reglulegir dagdraumar og ekkert gerist. Ég lifi þetta í dag og set mér markmið bæði um áramót og á þriggja mánaða fresti. Það eru engar stuttar leiðir og trúið mér, ég hef smakkað mín eigin meðöl sjálfur,“ segir Ingvar brosandi að lokum.

Mynd: OBÞ.