Æ algengara er að fólk brenni út eða ónæmiskerfið laskist í kjölfar álags og streitutímabils. Svava Björg Mörk er ein þeirra sem hefur ætíð haft þann stimpil á sér að vera dugleg, í einu og öllu. Einn daginn sagði Svava upp stöðu sinni sem leikskólastjóri í Bjarkalundi þegar hún kynntist naumyggju og áttaði sig á því að hún var fangi eigin efnishyggju. Á sama tíma var líkaminn við það að gefa undan. Eftir mikla tiltekt í lífinu fann hún köllun sína og langar að miðla henni, öðrum til góðs. 

Svava fór á námskeið með syni sínum þar sem mínimalistinn Joshua Becker hélt fyrirlestur. „Sonur minn hefur tileinkað sér þennan lífsstíl í einhvern tíma. Ég hafði í raun ekki hugleitt hvað felst í naumhyggjunni, hvort eða hvernig ég gæti hugsað mér að tengja við mína eigin reynslu eða lífsstíl. Ég var nýstigin upp úr veikindum, sat þarna með prjónana mína og vissi lítið um þau áhrif sem þessi stund myndi hafa á mig. Það litla sem ég vissi um naumhyggju var það sem ég sá son minn tileinka sér. Hann býr í 12 fm herbergi (heima hjá mér) og á lítið af fötum. Eða það var það sem ég hélt,“ segir Svava.

Svava Björg við skúr sem eiginmaðurinn hennar smíðaði til að koma öllu fyrir sem hún hafði safnað.

 

Var að seðja andlegt hungur

Í fyrirlestri Joshua Becker segir Svava að hann hefði rætt um augnablikið þegar „naumið hitti hann“; þegar hann sá möguleikann í því að staldra við og endurskoða líf sitt. „Ég ætla ekki að tíunda það sem hann ræddi um en mæli með bókinni hans The More of Less. Það rann bara skyndilega upp fyrir mér að ég var fangi eigin efnishyggju! Ég streðaði og stritaði til þess að geta keypt og keypt. Og til hvers? Hvað gerist þegar ég kaupi? Ég fylli upp í tómarúm og verðlauna sjálfa mig eða seðja andlegt hungur!“ Svava segir að eflaust flissi einhverjir núna sem þekkja hana vel. „Ég rauk af stað og tileinkaði mér lífsstílinn á núll einni. Eða það hélt ég!“

Losaði sig við 30 skópör

Svava byrjaði sem sagt á að ráðast á skóskápinn og losa sig við yfir 30 pör af skóm. Þarna fór boltinn að rúlla og hún fór að lesa um naumhyggju, eða mínimalisma, bæði bækur og ýmsar greinar. „Ég fækkaði hlutum markvisst og fann léttinn sem varð til í rýminu. Áreitið í kringum mig minnkaði. Ég tók líka til í pósthólfinu, afskráði mig úr alls konar áskriftum og þar með minnkaði áreitið þar líka.“ Eftir því sem hún rýndi meira í hvað felst í mínimalisma áttaði hún sig á mikilvægi þess að taka til innra með sér líka. „Minnka áreitið og það sem ég virtist hlaða endalaust á mig. Ég starfa sem leikskólastjóri, er í doktorsnámi, stundakennari í HÍ og held fyrirlestra og námskeið í leikskóla. Mikið? Já eiginlega! Líkaminn fór að kvarta, á sama tíma og ég var að skoða þetta allt. Þá loksins áttaði ég mig og fór að skrá niður hvernig dæmigerður dagur lítur út hjá mér, annars vegar og hins vegar hvernig mig langar til að hann líti út. Listarnir reyndust mjög ólíkir.“

Í stofunni, en þarna fremst hægra megin er handverk sem hún hefur yndi af að búa til og nýta garn.

Ikiagi er kjarni og lífsneisti

Í framhaldinu tók Svava það skref að segja upp sem leikskólastjóri (mun vinna fram að sumarfríi) og ákvað að hægja á náminu. „Ég er núna að búa mig undir að vera sjálfstæð og bjóða upp á fyrirlestra, námskeið og ráðgjöf. Í öllu þessu ferli óskaði ég eftir hugmynd að nafni fyrir „fyrirtækið mitt“ og þá kom góð vinkona með hugmyndina Ikigai. Ikigai er lífsneistinn eða kjarninn þinn; það er það sem fær þig til að vakna á morgnana – köllun þín! Lykillinn er að finna okkar eigin lífshamingju,“ segir Svava, en hennar Ikigai er að vera góð í að miðla því sem kveikir í henni og hrífa aðra með sér. Hún er með M.Ed. í menntunafræðum með áherslu á stjórnun og er hálfnuð í doktorsnámi þar sem hún rannsakar uppbyggingu samvinnusvæðis á milli ólíkra stofnana. Hún ætla að taka nokkur námskeið er snúa að mínimalisma og í framhaldi af því hanna sitt eigið námskeið.

Meiri gæðatími með sínu fólki

Með allri tiltektinni, að innan sem utan, segir Svava að hafi hún fundið kjarkinn til að stíga út fyrir þægindahringinn og hlusta á kjarnann sinn. „Þannig vel ég að gera það sem nærir andann og það hefur áhrif á allt í kringum mig. Það sem ég þarf að passa mig á er að missa mig ekki í gleðinni og hlaða of miklu á mig aftur. Ég vil nefnilega fyrst og fremst finna frið og ró, ná hvíld svo ég nái að njóta. Ég á litlar stelpur sem mig langar til að verja meiri tíma með, góða vini sem mér finnst gaman að umgangast og eiginmann, Jóhann Kristmundsson, sem er besti vinur minn og félagi. Þessir þættir eru mér ofarlega í huga í dag, kannski koma fram fleiri þegar ég rýni inn á við og þegar ég næ að draga úr áreitinu,“ segir Svava brosandi að lokum.

Myndir: Olga Björt.