Í maí 2017 fór ég á opinn fund hjá Íbúðalánasjóði þar sem kynnt voru leiguheimili íbúðafélagsins Bjargs.  Hugmyndin sem var kynnt er mjög heillandi en Bjarg íbúðafélag er rekið af ASÍ og BSRB án hagnaðarmarkmiða í þeim tilgangi að tryggja tekjulágum fjölskyldum aðgengi að góðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Ég var sérstaklega spennt yfir því að Íbúðalánasjóður var búinn samþykkja að veita stofnframlög vegna íbúða í Hraunskarði í Hafnarfirði. Ekki var vanþörf á því mikill  skortur er á húsnæði fyrir tekjulága sem og félagslegu húsnæði en í samningnum var gert ráð fyrir að Fjölskylduþjónusta Hafnarfjarðar fengi ráðstöfunarrétt á  25% íbúðanna.

Vonbrigði mín voru því mikil þegar ég sá að á heimasíðu félagsins er ekki lengur gert ráð fyrir neinum íbúðum í Hafnarfirði í fyrsta áfanga félagsins en þegar er byrjað á tveimur verkefnum í Reykjavík. Það sem kemur í veg fyrir framkvæmdir er að bæjaryfirvöld vilja ekki koma til móts við óskir félagsins um breytingar á skipulagi sem samræmast áherslum þess um hagkvæmar húsnæðislausnir.

Uppbygging húsnæðismarkaðar fyrir alla, óháð tekjum, er greinilega ekki í forgangi hjá núverandi meirihluta og það er áfellisdómur yfir honum. Húsnæðismálin eru hins vegar eitt af helstu áherslumálum hjá Samfylkingunni í Hafnarfirði – þar verða þau tekin föstum tökum.

 

Sigurbjörg Anna Guðnadóttir.

Höfundur er  stærðfræðingur og skipar áttunda sæti á lista Samfylkingarinnar í bæjarstjórnarkosningunum.