Örn Arnarson er Hafnfirðingur, Holtari og Haukari en býr núna í Kinnunum og skutlar dætrum sínum á fótboltaæfingar í Kaplakrika tvisvar í viku þar sem Margrét Brandsdóttir gerir þær að ástríðufullum FH-ingum.  Hann er giftur Kirstínu Ernu Blöndal söngkonu og eiga þau tvær dætur, þriggja- og fimm ára, þær Kristjönu Margréti og Sigríði Ellen.

Örn er klassískt menntaður söngvari með ólæknandi gítardellu og starfar sem tónlistarmaður og tónlistarstjóri hjá Fríkirkjunni í Hafnarfirði. Hann byrjaði kórferilinn í Öldutúnsskóla og fékk kórbakteríuna í Flensborgarkórnum. Þar var grunnurinn lagður að framtíðarstarfinu. Núna syngur han í Schola Cantorum sem starfar við Hallgrímskirkju og kórsöngurinn er alltaf sama ævintýrið eins og hann segir sjálfur.

img_3540Í hverju felst starfið þitt helst hjá Fríkirkjunni?

„Ég er titlaður tónlistarstjóri. Starfið felst nokkurn veginn í því sem organistar sjá venjulega um í kirkjum nema hvað ég spila á gítar en ekki orgel. Ég æfi og stjórna kirkjukórnum og hljómsveit kirkjunnar, en við erum með litla hljómsveit við flestar messur og kvöldvökur og ekki síst sunnudagaskólann þar sem alltaf er mikið stuð. Skarphéðinn Hjartarson spilar á flygilinn eða orgelið og Guðmundur Pálsson stórskáti er bassaleikarinn. Oftast er svo Rúnar Matthíasson á slagverk þegar kórinn er með.

Svo spila ég á gítar í svokölluðum Krílasálmum en Krílasálmar eru  dagskrá fyrir allra yngstu börnin og foreldra þeirra. Það er magnað að sjá börn á fyrsta ári bregðast við tónlistinni og þar eins og annarsstaðar hentar gítarinn.

Aðal starf mitt er sem sagt að velja tónlist við athafnir kirkjunnar, stýra flutningi hennar og spila með á gítar.“

Hvað er helst á döfinni í starfi Fríkirkjunnar þessa dagana?

„Jón Jónsson FH-ingur og snillingur (ekki oft sem það fer saman) ætlar að koma á kvöldvöku núna á sunnudaginn og svo tekur aðventan við með öllu sem henni fylgir.

Við verðum auðvitað með aðventu kvöld og kórtónleika en svo eru ýmsar aðrar skemmtilegar hefðir sem við höldum í. Við í kórnum og hljómsveitinni förum til dæmis í heimsókn í klaustrið á hverri aðventu og eigum góða stund með nunnunum. Við syngjum og spilum fyrir þær og þær fyrir okkur og svo endum við alltaf á að spila og syngja (djamma) saman í restina.

Svo koma blessuð börnin! Hópar barna úr leik- og grunnskólum með sínu frábæra kennaraliði. Við sr. Sigga eigum með þeim stund í kirkjunni og svo fara þau yfir í safnaðarheimilið og fá smákökur og heitt súkkulaði með rjóma, þótt einn hafi reyndar sagt okkur að honum finnist hart súkkulaði betra. Þau eru ófá vísdómsorðin sem hrynja af vörum barnanna hér á aðventunni. Síðasti sunnudagaskóli fyrir jól er svo jólaball á Thorsplani.“

Örn Arnarson, tónlistarstjóri Fríkirkjunnar í Hafnarfirði

Örn Arnarson, tónlistarstjóri Fríkirkjunnar í Hafnarfirði

Eru Hafnfirðingar duglegir að sækja í starfið?

„Já. Það er yfirleitt góð þáttaka í helgihaldinu. Svo eru margir sem sinna heilmiklu starfi fyrir kven-  og bræðrafélög kirkjunnar. Ég sé ekki fyrir mér hvernig starfið hér væri ef þeirra félaga nyti ekki við. Fríkirkjan í Hafnarfirði eru grasrótarsamtök og við sem störfum hér erum meðvituð um það.  Fólki þykir vænt um kirkjuna sína og margir sýna það í orði og verki. Ég þakka fyrir hvern dag sem ég fæ að starfa hérna. Þetta er eins og í boltasportinu. Það er gott að vera í góðu liði.“

 

Nánar um Fríkirkjuna í Hafnarfirði á: frikirkja.is