Eins og fram hefur komið í fréttum vill borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að almennar bólusetningar verði gerðar að skilyrði fyrir inntöku barna á leikskólum borgarinnar. Einnig hefur sóttvarnarlæknir lýst yfir áhyggjum af minnkandi þátttöku í almennum bólusetningum og megi jafnvel búast við að hér á landi fari að sjást sjúkdómar sem ekki hafi sést um árabil. Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnafirði tekur undir þessar áhyggjur.

„Eftir umræðuna sem hefur átt sér stað um þessi mál í Reykjavík hef ég verið dálítið hugsi. Mér finnst að við eigum að tryggja það að öll börn í Hafnarfirði séu bólusett því það er þeim fyrir bestu. Af þessum 10% barna á leikskólaaldri sem hafa ekki verið bólusett er talið að 8% sé vegna þess að foreldrarnir hafa gleymt því að mæta með börn sín í bólusetningu. Við þurfum að skoða þessi mál hérna í Hafnarfirði,“ segir Guðbjörg og bætir við að fyrsta skrefið gæti t.d. verið að auka samvinnu á milli heilsugæslustöðva og leikskóla. Þannig væri hægt að fylgjast með því hvaða börn eru ekki bólusett og hvetja þannig foreldrana til að bólusetja börn. „Þegar ég fór í nám í bandarískum háskóla þurfti ég að senda vottorð frá lækni mínum á Íslandi hvaða bólusetningar ég væri með og endurnýja nokkrar sprautur. Ég hefði annars ekki fengið skólavist. Það var gert til að tryggja öryggi mitt og samnemenda minna í alþjóðlegu umhverfi þar sem fólk frá mörgum löndum stundaði nám við skólann.“