Í kosningunum á laugardaginn verður kosið um framtíð Hafnarfjarðar. Það verður kosið um það hvort haldið verði áfram á braut ábyrgrar fjármálastjórnunar og skynsamrar uppbyggingar líkt og undanfarin fjögur ár eða ekki. Við Sjálfstæðismenn höfum sýnt það að við erum traustsins verð.  Við höfum staðið við það sem við boðuðum fyrir síðustu kosningar og látið verkin tala.

Það er mikilvægt að halda áfram að fylgja þeim árangri eftir sem náðst hefur í rekstri sveitarfélagsins. Skuldahlutfall bæjarsjóðs hefur ekki verið lægra í 30 ár og búið hefur verið þannig um hnútana að afgangurinn af rekstrinum nægir fyrir afborgunum lána og stendur undir framkvæmdum, lægri álögum og nýjum verkefnum sem ráðist hefur verið í á kjörtímabilinu. Í fyrsta sinn í áratugi hafa ekki verið tekin lán fyrir afborgunum lána og framkvæmt einungis fyrir eigið fé sveitarfélagsins. Það hefur lækkað fjármagnskostnað um hundruð milljóna á ári hverju.

Framtíðin björt

Við Sjálfstæðismenn viljum halda áfram á þessari braut. Halda áfram að byggja upp fjárhag bæjarfélagsins og styrkja enn frekar forsendur þess að geta eflt þjónustu, lækkað álögur og gjöld áfram næstu árin. Tækifærin framundan í Hafnarfirði eru óteljandi og framtíðin björt verði rétt haldið á málum.

Sjálfstæðisflokkurinn býður fram kraftmikinn og samhentan hóp fólks með mikilvæga reynslu úr bæjarstjórn og annars staðar frá. Við viljum halda áfram fyrir Hafnarfjörð. Atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum er atkvæði greitt áframhaldandi farsæld og ábyrgum rekstri, framförum og uppbyggingu á öllum sviðum. Tryggjum Sjálfstæðisflokknum því góða kosningu á laugardaginn.

 

Rósa Guðbjartsdóttir formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins.